Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Almannavarnir endurtalsetja auglýsingar stórfyrirtækja

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Vafalaust hrukku einhverjir sjónvarpsáhorfendur í kút þegar auglýsingar nokkurra stórfyrirtækja birtust á skjáum landsmanna um helgina en með allt öðrum röddum og skilaboðum. Áhorfendur voru hvattir til að virða nándarmörk og þvo sér um hendurnar því ekki væri nóg að tala bara um þessa hluti.

Og þetta átti sér allt sínar eðlilegu skýringar.  Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sem hefur stýrt forvarnastarfinu í kringum kórónuveirufaraldurinn, hefur fengið leyfi hjá nokkrum fyrirtækjum til að endurtalsetja auglýsingar þeirra með sínum „covid-röddum“. 

Þannig fær stofnunin leyfi til að nýta sér markaðsefni fyrirtækjanna til að koma mikilvægum skilaboðum um handþvott og tveggja metra regluna á framfæri. Hægt er að skoða allar auglýsingarnar hér.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að undirbúningurinn að þessu hafi staðið síðan í september eða um það leyti sem þriðja bylgja farsóttarinnar fór af stað. 

Einhver framleiðslukostnaður er vegna breytinganna en fyrirtæki, sjónvarpsstöðvarnar og almannavarnir taka sameiginlega þátt í birtingakostnaði.

Jóhann segir að það verði ekki eingöngu lögð áhersla á sjónvarp heldur líka vef, útvarp og dagblöð.  Hann vonast til að enn fleiri fyrirtæki taki þátt í þessu verkefni. „Við erum að reyna að finna alla leiðir til að ná til almennings.“ 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem gripið er til óhefðbundinna ráða í kórónuveirufaraldrinum. Fyrr í vetur voru landsþekktir Íslendingar fengnir til að taka þátt í herferð sem átti að minna fólk á mikilvægi einstaklingsbundinna sýkingavarna.

Þetta voru meðal annars Þorgerður Katrín Gunnarsdótir og Katrín Jakobsdóttir sem vildu fara í sund, bræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssyni sem máttu ekki knúsast og Páll Óskar sem varð að fresta afmælisveislunni sinni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV