Icelandair Cargo flytur um 20 til 80 hesta til útlanda í hverri viku. Mikael Grétarsson forstöðumaður útflutningssviðs hjá félaginu segir að eftirspurn hafi verið að aukast á undanförnum mánuðum.
"Þetta er mikil aukning og tekur svolítið á að takast á við þetta,“ segir Mikael.
Sérstakir gámar eru notaðir til að flytja hestana og Mikael segir að Icelandair Cargo sé nú að fjárfesta í fleiri hestagámum til að geta sinnt betur þessum flutningum.
Alls voru 26 hestar fluttir með flugi til Belgíu í dag þar á meðal verðlaunahesturinn Kveikur sem hefur verið seldur til Danmerkur fyrir metfé.
Hestaútflytjendur segja að vel hafi gengið að selja íslenska hesta til útlanda á þessu ári og að eftirspurnin hafi aukist eftir að krónan fór að veikjast.
„Það er heilmikill útflutningur á hestum akkúrat núna og í raun og veru óvenjumikill útflutningur miðað við ástandið í heiminum,“ segir Gunnar Arnarson eigandi Horse Export.
Undir þetta tekur Eysteinn Leifsson hjá Export Hestum.
"Það stefnir bara í mjög gott ár,“ segir Eysteinn.