Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Um sextíu smit rakin til hópsýkingar á Landakoti

25.10.2020 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Um sextíu smit hafa verið rakin til hópsýkingar á Landakoti. Sóttvarnalæknir segir líklegt að fleiri smit muni greinast.

35 veikir á spítala

58 smit greinust innanlands í gær. Meirihlutinn var í sóttkví. 35 eru í einangrun á spítala vegna sjúkdómsins, þar af fjórir á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél, samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni. 

Meirihluti þeirra sem eru á Landspítala með COVID-19 eru sjúklingar sem voru fluttir af Landakoti. Þar hafa nítján sjúklingar greinst með veiruna og tíu starfsmenn. Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að aðstandandi, sem var þar í heimsókn hjá sjúkling í vikunni, hafi greinst með veiruna í gær.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir augljóst að smitum sé aftur að fjölga, aftur á móti sé samfélagslegt smit ekki mikið. „En svo bætist þessi stóra hópsýking frá Landakoti ofan á. Mér sýnist að það séu tæplega sextíu einstaklingar, bæði vistmenn og starfsmenn sem hafa smitast núna á undanförnum dögum og það bætir í álagið,“ segir Þórólfur. Álagið á Landspítala sé mikið.  Þórólfur segir líkur á að aðstandendur sjúklinga og starfsmanna geti smitast. „Það gæti alveg verið. Ég held að við séum ekki búin að sjá fyrir endann á smitunum og ég held að við þurfum að vera undir það búin að fá fleiri smit, en ég vona þá að við förum ekki að fá samfélagslegt smit út frá þessum hópi en það gæti gerst,“ segir Þórólfur.

Líka smit á Landakoti í vor

Talið er að smitið hafi komið á Landakot með starfsmanni. Mikil áhersla hefur verið lögð á að vernda viðkvæmustu hópana fyrir veirunni, en þetta er í annað sinn sem smit kemur upp á Landakoti. 

Lærðum við ekkert af því? Hvernig gat þetta gerst aftur? „Það er góð spurning,“ segir Þórólfur. Landspítalinn sé með eigið sýkingavarnateymi og sýkingavarnadeild og reyni að standa að sóttvörnum eins vel og hægt sé. „En ég held að þetta sýni að það þarf lítið út af að bregða til þess að svona hópsýking geti komið upp, í þessu tilviki virðist smitið hafa komið inn með smituðum starfsmanni eða starfsmönnum og það þarf að skerpa á þessu alls staðar, á öllum vinnustöðum, og sérstaklega þar sem eru viðkvæmir hópar,“ segir Þórólfur.

Sjúklingur sem greindist á Reykjalundi kom frá Landakoti

Fimm sjúklingar og fimm starfsmenn á Reykjalundi hafa greinst með sjúkdóminn. Sjúklingarnir voru fluttir á Landspítala í gærkvöld. Enginn þeirra er mjög veikur, en einn með einkenni sjúkdómsins. Nítján starfsmenn og níu sjúklingar eru í sóttkví. Pétur Magnússon, forstjóri á Reykjalundi, segir að ekki sé ljóst hvaðan smitið barst inn á deildina. „Og það gerir málið örlítið flókið því að þá erum við með stærri hóp starfsmanna í sóttkví,“ segir Pétur. 

Pétur játar því að einhver þeirra sem greindust á Reykjalundi hafi verið að koma frá Landakoti. „Jú. Sjúklingar voru að koma af Landspítala vikuna sem er að líða,“ segir Pétur. Ómögulegt sé þó að fullyrða hvort viðkomandi hafi smitast þar.

En er einhver hætta á því að mistök hafi verið gerð sem verða til þess að smitin breiðast út? „Það er ómögulegt að segja,“ segir Pétur. Allir starfsmenn séu að gera sitt besta til að koma í veg fyrir smit. „Það vill enginn vera valdur að því að aðrir smitist, sérstaklega ekki fólk sem er í áhættuhópum, þannig að það eru allir að reyna að gera sitt besta, en veiran er skæð og fer ekki í manngreinarálit og smit geta komið upp alls staðar,“ segir Pétur.