Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stjórnarformaður Samsung-samsteypunnar látinn

25.10.2020 - 04:23
epa08771883 (FILE) - Samsung Group Chairman Lee Kun-hee talks during a press conference on his conglomerate's reform plan at Samsung's main office in Seoul, South Korea, 22 April 2008 (reissued 25 October 2020). According to local media reports, Lee Kun-hee died on 25 October, aged 78, after being hospitalized for six years following a heart attack in May 2014.  EPA-EFE/BAE JONG-HWA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lee Kun-hee, auðugasti og valdamesti iðjuhöldur Suður Kóreu lést í dag 78 ára að aldri. Hann var stjórnarformaður Samsung og tókst í sinni tíð að gera fyrirtækið að einhverju mesta tæknistórveldi heimsins.

Hann tók við stjórnartaumunum af föður sínum og stofnanda Samsung árið 1987. Fyrirtækið, sem var stofnað 1938, var þegar orðið voldugasta fyrirtækjasamsteypa Suður-Kóreu.

Lee hafði tekist að gera Samsung að alþjóðlegu stórveldi árið 2014 þegar hann fékk hjartaáfall sem leiddi til þess að hann hefur verið meira og minna rúmfastur síðan.

Samsung er stærst og voldugast svokallaðra Chaebol fyrirtækja í landinu en það eru risasamsteypur reknar sem fjölskyldufyrirtæki. Þau umbreyttu stríðshrjáðu landinu í tólfta stærsta hagkerfi veraldar á nokkrum áratugum.

Stórfyrirtækin og eigendur þeirra liggja nú orðið undir þungu ámæli fyrir óeðlileg tengsl inn í stjórnmálalíf landsins auk þess sem þau eru sögð brjóta alla samkeppni á bak aftur.

Lee sjálfur hlaut tvisvar sinnum dóm fyrir glæpsamlegt athæfi, í annað skiptið fyrir að múta þáverandi forseta Suður-Kóreu. Hann var kvæntur og átti fjögur börn.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV