Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Sama þó þú reynir, þú getur ekki hunsað eigin þarfir“

Mynd: RÚV / Samsett mynd

„Sama þó þú reynir, þú getur ekki hunsað eigin þarfir“

25.10.2020 - 15:11

Höfundar

Kvikmyndin Tom of Finland fjallar um ævi finnska listamannsins Tuokos Valios Laaksonens. Svæsnar myndasögur hans hafa haft mjög mikil áhrif á fagurfræði og kynvitund samkynhneigðra karlmanna. Tom of Finland er sýnd á Evrópskum bíódögum á RÚV í kvöld klukkan 23:40.

Páll Óskar Hjálmtýsson er mikill aðdáandi teiknarans sem gekk undir listamannsnafninu Tom of Finland. Hann á meðal annars bol og sængurver með myndum meistarans auk ævistarfs hans í risastórri og níðþungri bók. Hann kynntist verkum hans í bókasafni Samtakanna '78 þegar hann var 18 ára og nýkominn út úr skápnum. „Vó! þetta voru sko dónalegar myndasögur. Sjóðheitir gaurar allir að ríða hver öðrum í klessu með bros á vör, og jafnvel hlógu á meðan,“ segir Páll Óskar. „Og til að bæta í stuðið voru þeir allir einkennisklæddir; hermenn, löggur, hásetar, landamæra- og stöðumælaverðir. Og síðast en ekki síst mótorhjólagaurar í leðri frá toppi til táar. Það eru ekki margir sem kveikja á því en Tom of Finland hannaði leðurhommalúkkið.“

Að sögn Páls Óskars hóf Tom of Finland að teikna upp eigin kynlífsfantasíur stuttu eftir seinni heimsstyrjöld en verkin hans slógu seinna í gegn í hommasenunni í Bandaríkjunum. „Það fyrsta sem ég tók eftir var hvað það er gaman hjá þeim. Þessi fölskvalausa leikgleði sem einkennir kynlífið í teikningum Tom of Finland kom 18 ára mér á óvart. Ég hélt að kynlíf væri eitthvað sem maður ætti að skammast sín fyrir, og sérstaklega ef þú varst hommi.“ Karakterarnir í myndasögum Toms of Finland hafi hins vegar ekki skammast sín neitt og þess vegna hafi þær talað svo sterkt til samkynhneigðra karla. „Þær tóku burt skömmina.“

Jafnvel enn þann dag í dag viðgangist þó lúmsk smánun gagnvart hommakynlífi. „Þó það sé ekki fordæmt er það litið hornauga. Ef kynlíf okkar ber á góma í kaffipásum eða búningsklefum er það yfirleitt notað sem pönslæn í bröndurum.“ Páll Óskar telur líklegt að vegna þessa kjósi margir samkynhneigðir og tvíkynhneigðir karlmenn að halda sig í skápnum frekar en að láta hæðast að sér. „Ekki ósvipað og persónurnar í Tom of Finland myndinni gera. En svo springa þessir sömu gaurar og verða að fá sér að ríða næst þegar tunglið er fullt og þeir verða svangir. Sama hvað þú reynir, þú getur ekki hunsað eigin þarfir og langanir þegar náttúran kallar. Um þetta eru sögurnar hans Tom of Finland. Náttúran kallar, kynlíf er dásamlegt, gott og gaman og ekki skammast þín fyrir það!“

Tom of Finland er á dagskrá RÚV klukkan 23.40 í kvöld.

Tengdar fréttir

Leiklist

Páll Óskar of vænn fyrir Rocky Horror

Tónlist

Kynsnillingurinn Páll Óskar

Kvikmyndir

Falleg saga um hommaklám

Myndlist

„Þeir klæddust kynþokkafyllstu búningunum“