Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Riða er sjúkdómur sem leikur bændur grátt

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Riða hefur verið staðfest á einum bæ í Skagafirði í vikunni og samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu er fé smitað á þremur bæjum til viðbótar. Riða er sjúkdómur sem veldur miklum búsifjum. Ekki er til nein lækning við honum.

Á heimasíðu Matvælastofnunar má lesa fróðleik um sjúkdóminn. Riða veldur hrörnunarskemmdum í heila og mænu kinda. Flestar kindur sem sýna einkenni sjúkdómsins eru á aldursbilinu eins og hálfs árs til fimm ára. Riða hefur greinst í sjö mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. 

Hvorki baktería né veira veldur riðu, heldur prótín sem nefnist Príon. Það er mjög lífseigt og þolir langa suðu og sótthreinsiefn. Helst er hægt að verjast því með klór. Kindur geta gengið með riðu langa ævi án þess að hún komi fram. Oftast er þó kindin veik í mánuði áður en hún deyr, sjaldan þó lengur en eitt ár. Veikin leiðir kindina stundum til dauða á fáum vikum, eða á skemmri tíma. Smitefnið virðist lifa í umhverfinu í meira en áratug og getur komið upp á sama bæ oftar en einu sinni.

Engar vísbendingar eru um að fólki stafi hætta af snertingu við riðusmitað fé né neyslu afurða þess, svo sem kjöts, innmatar og mjólkur. Hvorki neytendur né fólk sem starfar á sauðfjárbúum eða í sláturhúsum er í hættu vegna riðuveiki í sauðfé.  

Riða er ekki bara riða

Annað afbrigði af riðu, Nor98, var fyrst uppgötvað í Noregi árið 1998. Þessi tegund riðu er ekki smitandi heldur kemur tilviljanakennt upp í kindum, einna helst í eldra fé.  Nor98 fannst í fyrsta skipti hér á landi árið 2004 í Biskupstungum. Þá voru viðbrögðin þau sömu og við hefðbundinni riðu, þ.e. förgun á allri hjörðinni. Í dag er það hins vegar viðurkennt á alþjóðavísu að Nor98 smitast ekki á milli kinda þannig viðbrögð við staðfestingu Nor98 tilviks er að auka eftirlit með bænum og taka sýni úr fullorðnum kindum í 5 ár á eftir.

Riða í sauðfé smitast fyrst og fremst með því að skepnurnar éta, drekka eða sleikja smitefni með óhreinindum. Algengasta smitleiðin er um munn en getur líka orðið um sár og á meðgöngu. Smit getur borist á milli bæja með lifandi kindum og dauðum, skít, áhöldum eins og rúningsklippum og sprautunálum, landbúnaðartækjum og heyi. Smithættan er mest við húsvist á sauðburði þar sem mikið magn af smitefninu finnst í hildum og fósturvatni.

Getur smitast með ótal leiðum

Smitefnið, príonprótínið, er afar lífseigt. Það þolir t.d. hita og kulda, langa suðu, geislun og flest sótthreinsiefni nema helst klór og vítissóda. Smiteiginleikar príonprótínsins varðveitast betur neðanjarðar því frost, hiti og geislar sólar brjóta prótínið smátt og smátt niður. Í nýlegu dæmi er talið að smit hafi orðið vegna jarðvegsvinnu. Þá voru ræstir út skurðir og við það komið niður á stað þar sem riðuveikar kindur höfðu verið urðaðar. Þarna var því komin bein smitleið að riðusmitefninu sem kindur náðu að smitast af sem gengur á túninu skömmu seinna.

Þar sem að orsakavaldur riðunnar er ekki hefðbundið smitefni (vírus eða baktería) þá veldur riðan engu ónæmissvari í líkama kindarinnar og því ekki möguleiki að nýta bóluefni.

Riða lengið valdið búsifjum á Íslandi

Fyrir um fjörutíu árum, eða árið 1978 var útlit fyrir að riða myndi dreifa úr sér um land allt.  Riða var þekkt á 104 bæjum og fannst í næstum 700 kindum árlega. Það var því að duga eða drepast. Aðgerðir til að stöðva útbreiðslu veikinnar hófust það ár. Þær virtust skila árangri strax, en ekki nægum. Árið 1986 var hert á aðgerðum og ákveðið að reyna útrýmingu með öllum ráðum.

Hér fyrir neðan má sjá fjölda greindra tilfella á ári frá árinu 1987 til 2017.

Mynd með færslu
 Mynd: MAST - RÚV

Þær reglur hafa gilt síðan. Þegar riðuveiki finnst á nýjum bæ er samið við eiganda, öllu fénu fargað strax og þinglýst fjárleysi á jörðinni. Farga skal hverri kind sem látin hefur verið til annarra bæja frá sýkta bænum, líka öllum kindum frá öðrum bæjum sem hýstar hafa verið á riðubænum yfir nótt eða lengur. Þar sem riða hefur náð að búa um sig og smitleið er ókunn getur þurft að farga á snertibæjum og jafnvel öllu fé á heilum svæðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

Héraðsdýralæknir metur hvað hægt er að hreinsa, hvað verður að fjarlægja og áætlar jarðvegsskipti við hús. Hús, tæki og tól eru háþrýstiþvegin og sótthreinsuð með klóri og joði eða sviðin með loga. Hreinsun skal taka út áður en yfirborði er lokað, timbri með fúavarnarefni, steini og járni með sterkri málningu. Notað er mauraeitur tvisvar sinnum vegna heymauranna. Heyjum frá riðutíma er eytt. Jarðvegsskipti fara fram, síðan er sand- eða malborið (malbikað).

Tvö fjárlaus ár

Að tveimur árum liðnum er nýr fjárstofn tekinn frá ósýktu svæði. Bannað var í upphafi aðgerða 1978 að nota sláturúrgang og sjálfdauð dýr frá riðusvæðum til fóðurgerðar og innflutningur á slíku fóðri óheimill. Þetta var 10 árum fyrr en í Englandi og hefur mögulega orðið til þess, að Ísland slapp við kúariðu.

Þegar aðgerðir hófust voru 25 varnarhólf af 38 sýkt. Í dag teljast 8 varnarhólf af 25 til sýktra svæða. Riða hefur komið aftur í nýjan fjárstofn á um 12 prósent bæjanna, á suma oftar en einu sinni.