Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Pompeo krefur Lukasjenka um frelsun Shkliarovs

epa07081559 US Secretary of State Mike Pompeo delivers remarks to members of the news media on his recent trip to North Korea and his appreciation for outgoing US Ambassador to the United Nations Nikki Haley, at the White House in Washington, DC, USA, 09
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddi í gær við Alexander Lukasjenka forseta Hvíta Rússlands og krafðist þess að stjórnmálaráðgjafinn Vitali Shkliarov yrði látinn laus úr fangelsi og sendur til Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherrann bandaríski áréttaði jafnframt áframhaldandi stuðning við þrá Hvítrússa eftir lýðræðisumbótum í landinu.

Vitali Shkliarov var tekinn höndum 29. júlí í aðdraganda forsetakosninganna og settur í fangelsi. Áður hafði hann skrifað talsvert um kosningarnar og meðal annars sagt að Lukasjenka beitti óvönduðum meðulum í kosningabaráttu sinni.

Lögfræðingur Shkliarovs upplýsti í vikunni að hann hefði verið fluttur í stofufangelsi. Hvítrússnesk stjórnvöld sökuðu hann um að hafa tekið þátt í skipulagningu óeirða í landinu en hann neitar alfarið sök. Shkliarov er gestakennari við Harvard háskóla og starfaði fyrir framboð Bernie Sanders og Barracks Obama vestra. 

James Gilmore sendimaður Bandaríkjanna hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu kallaði eftir lausn Shkliarovs fyrr í mánuðinum og sagði hann hafa mátt þola miklar andlegar og líkamlegar misþyrmingar í prísundinni. Heather, bandarísk eiginkona Shkliarovs og sendierindreki, lýsti jafnframt miklum áhyggjum af heilsu hans í síðasta mánuði.

Allir helstu andstæðingar Lukasjenka voru handteknir eftir kosningarnar eða flúðu land. Mótmæli gegn honum brutust út um leið og úrslit kosninganna lágu fyrir og halda enn áfram þrátt fyrir hótanir lögreglu um að skotið verði á þá mótmælendur sem hafa sig í frammi.