Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil gleði við opnun Dýrafjarðarganga

Dýrafjarðargöng voru opnuð við hátíðlega athöfn í dag og leysa þar með Hrafnseyrarheiði af hólmi. Maður sem hefur mokað heiðina í nær hálfa öld segir löngu kominn tími á það og grunnskólabörn á Þingeyri munu ekki sakna þess að fara heiðina.

Vestfirðingar röðuðu sér upp í eftirvæntingu beggja vegna ganganna í dag, en ávörpum samgönguráðherra og forstjóra Vegagerðarinnar var útvarpað frá Reykjavík. 

Göngin tengja nú botna Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Þau stytta leið á milli norðanverðra Vestfjarða og Suðurfjarðanna um rúma 27 kílómetra og leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi. Hún hefur reynst hættulegur farartálmi og títt lokast að vetrinum í gegnum árin. 

Lengi hefur verið beðið eftir göngunum, en 2010 tóku nemendur skólans á Þingeyri sig til og tóku að eigin frumkvæði fyrstu skóflustunguna að göngunum. Það var svo ekki fyrr en í maí 2017 sem fyrsta, eða önnur, skóflustunga var tekin og framkvæmdir hófust. 

Fyrst í gegnum göngin Dýrafjarðarmegin voru börnin úr grunnskólanum á Þingeyri og Gunnar Gísli Sigurðsson, sem hefur mokað Hrafnseyrarheiði síðan 1974.

Gunnar Gísli segir það góða tilfinningu að sjá Dýrafjarðargöng opna og hann muni ekki sakna þess að moka heiðina.

Krakkarnir úr grunnskólanum á Þingeyri fengu að fara fyrst í gegnum göngin eftir að hafa skrifað ráðherra bréf og beðið um það. Þau eru öll glöð að þurfa ekki að keyra Hrafnseyrarheiði lengur.