Verkið, sem reis í síðustu viku, fékk fyrst athygli fyrir tveimur árum, tíu árum eftir að það varð til, þegar Garbati deildi mynd af því á Instagram. Í kjölfarið fór hin nýja Medúsa á flug um netheima og þaðan í fjölmiðla. Það var þá sem Bek nokkur Andersen, ljósmyndari búsett í New York, rakst á verkið, og heillaðist af því. Andersen sá verkið sama dag Donald Trump útnefndi Brett Kavanaugh til embættis hæstaréttardómara, þrátt fyrir að Christine Blasey Ford hafi sakað hann um kynferðislega áreitni. Andersen fannst verkið vera fullkomið innlegg í #metoo-umræðuna, setti sig í samband við listamanninn og kom því til leiðar að farið var með styttuna frá Buenos Aires til New York, þar sem hún fékk sinn stað í galleríi í Brooklyn. Saman unnu þau Garbati og Andersen svo að tillögu til New York-borgar um samkeppni um list í almenningsgörðum, samkeppni sem hefur fært borginni yfir 2000 útilistaverk frá árinu 1967. Tillagan var samþykkt og verkið var reist í síðustu viku og standur fram á vor.
En ekki eru allir jafn hrifnir af verkinu. Sumir hafa bent á þversögnina sem felst í því að karlmanni skuli vera falið það verk að vekja máls á #metoo-hreyfingunni í almenningsrými, og segja aðrir að hér sé enn einn karlmaðurinn að stíga #metoo-ölduna, með það eina markmið að láta hana bera sig áfram að ströndu frægðar frekar en hugsjóna. Og auðvitað er lögmætt að velta því fyrir sér hvort það geti talist eðlilegt að hvítur karlamaður fái vettvang til að tjá sig um hreyfingu sem var hrundið af stað af svartri konu. Dæmigert myndu sumir segja.
Enn aðrir hafa bent á hversu skrítið það sé að Medúsa skuli halda á höfði Perseifs, mannsins sem jú vissulega drap hana sér til framdráttar, en hvað með nauðgara hennar Poseidon, er hann ekki upphafsmaður hennar sorglegu örlaga?
Og svo eru það þeir sem eiga erfitt með útlit hinnar nýju Medúsu. Hin sigursæla Medúsa Garbatis er nefnilega með líkama sem minnir fyrst og fremst á kröfur hins vestræna nútímasamfélags og sem smellpassar við hugmyndina um hinn fullkomna kvenlíkama. Hugmyndar sem óhætt er að fullyrða að sé hluti af þeim skorðum og hólfum sem nútímasamfélagið hefur plantað konum í. Það skýtur óneitanlega skökku við að myndlíking fyrir sigur konunnar yfir feðraveldinu skuli líta út eins og súpermódel. Og ekki síður ef við hugsum um fyrirmynd verksins og innblástur listamannsins, sem er sextándu aldar list, þar sem líkamar kvenna voru oftar en ekki mjúkir og ávalir.
En það sem vekur kannski mesta athygli við útlit hinnar nýju Medúsu er ekki hinn ídealíski líkami, í okkar menningarlega skilningi, heldur er það sú staðreynd að Medúsa hefur engin skapahár. Skapaháraleysi styttunnar er það sem helst hefur brunnið á fólki og vilja þó nokkrir gagnrýnendur styttunnar meina að þessi staðreynd ýti enn frekar undir þá hugmynd að hér sé á ferðinni, enn og aftur, túlkun og hugarórar karlmanns sem ekki bara vísi í skaðlegar kröfur samfélagsins um hinn fullkomna líkama konu heldur einnig í veröld klámsins, þar sem engin skapahár hafa orðið að normi í seinni tíð.
Til varnar þessum röddum segist Garbati vera að vísa í klassíska hefð þar sem styttur hafi aldrei skapahár. Mótrök sem verða ansi máttlaus þegar flett er í gegnum listasöguna, því þar má oftar en ekki sjá kynfæri karla umlukin hárum, allavega einhvers konar mynstri sem minnir á hár. Sé Perseifur Cellinis skoðaður gaumgæfilega, sem er fyrirmynd umræddrar Medúsu, má einmitt sjá flúrað mynstur sem minnir einna helst á kórónu, sitja ofan við kynfæri hetjunnar.
Enn annað sem hefur truflað gagnrýnendur styttunnar er sú staðreynd að andlit Perseifs er óþægilega líkt listamanninum sjálfum. Þessari gagnrýni hefur listamaðurinn svarað sem svo að hann hafi verið svo mikið einn á vinnustofunni að hans eigin spegilmynd hafi hreinlega hentað best sem fyrirmynd. Í listasögunni eru auðvitað til mýmörg dæmi um listamenn sem setja sig sjálfa í verkin, en í þessu samhengi er það óneitanlega dáldið skrítið. Hin fallna hetja er listamaðurinn sjálfur, sem gerir það að verkum að merkingin riðlast, hetjan færist einhvern veginn nær því að vera fórnarlamb Medúsu frekar en að vera táknmynd feðraveldisins.
En sama hvort við sjáum hina sigursælu Medúsu New York-borgar sem fallega eða ljóta styttu, smekklega eða ósmekklega, hefð eða klám, ákall um athygli eða ákall um umræðu, hugaróra feðraveldis eða sigur yfir feðraveldi, þá er nokkuð víst að styttan hefur skapað umræðu og þar hefur hún þjónað tilgangi sínum sem innlegg í almannarýmið.
Goðsagan kallast vissulega að einhverju leyti á við #metoo-sögur nútímans, og þó einhver mál hafi unnist í dómshúsum borga heimsins, vitum við mætavel að við hetjur fortíðar er að etja. Öflin eru sterkari en svo að goðsagan geti ummyndast á einni nóttu. Þegar kemur að dómsmálum gegn kynferðisofbeldi eru valdaöflin svo rótgróin hugmyndum samfélagsins að kraftar Medici-ættarinnar blikna í samanburði. Perseifur í sínum bronslita fullkomleika með blóðugt höfuð Medúsu minnti almenning á hversu hættulegt það væri að gera uppreisn gegn valdinu. Það er spurning hvort Medúsa New York-borgar geti orkað svo sterkt á vegfarendur að hún hreyfi við og minni á hversu öfugsnúinn veruleikinn raunverulega er.
Það þarf eflaust þónokkur ár til viðbótar til að umbreyta goðsögu sem endurspeglar viðhorf samfélagsins. Nútíminn skapar þó líka goðsögur og byltingar verða áfram háðar, en hvort að endurgerð á endurreisnarstyttu verði hugvekjandi afl í þeirri baráttu verður framtíðin að bera í skauti sér.
Það er svo sannarlega kominn tími á að endurhugsa goðsöguna um Medúsu en hvort leið argentíska listamannasins Garbati sé gott innlegg í þá umræðu er umdeilanlegt. Verkið stuðar marga og þykir hreinlega ekki vera nógu heiðarlegt, þykir ekki koma frá réttum stað.
Sagan hefur túlkað Medúsu sem fórnarlamb en það þarf ekki að þýða að hún hafi verið það. Þó svo að sagnamenn og listamenn fyrri alda hafi lýst henni sem skrímsli, Freud þar meðtalinn, þá snýst þetta auðvitað allt um sjónarhorn. Feminíski rithöfundurinn og heimspekingurinn Helen Cixous sneri dæminu til dæmis við á áttunda áratug síðustu aldar í frægri grein sinni Hlátur Medúsu, en goðsögur hverfa ekki úr minni okkar á einni nóttu. Goðsögur eru langlífar, þær eru hluti af okkur.
Í stað þess að líta á gjörðir Aþenu í kjölfar nauðgunar Póseidons sem álög, getum við litið á þær sem gjöf. Eitraðir snákar og augnaráð sem breytir ofbeldismönnum í stein voru kannski ofurkraftar til varnar ofbeldi, frekar en bölvun. Því eitt er allavega alveg víst, þolendur kynferðisobeldis gætu vel nýtt sér ofurkrafta Medúsu í dómshúsum allra landa. Því skömm og skrímslavæðing þolenda er svo sannarlega enn hluti af hinni ævafornu goðsögu.