Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Meirihluti íbúa Sólvalla með Covid-19

25.10.2020 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ellefu íbúar öldrunarheimilisins Sólvalla á Eyrarbakka eru smitaðir af COVID-19. Sex íbúar greindust neikvæðir. Fjórir starfsmenn eru einnig smitaðir. Íbúar sem eru smitaðir verða fluttir til Reykjavíkur.

Þetta staðfestir Jóhanna Harðardóttir hjúkrunarfræðingur á Sólvöllum í samtali við fréttastofu. 19 manns búa á Sólvöllum. Tveir íbúar greindust með veiruna á heimilinu í fyrrakvöld og ellefu til viðbótar seint í gærkvöld. Allir starfsmenn heimilisins, sem eru um 25 eru í sóttkví. Sex íbúar reyndust neikvæðir í skimuninni. Jóhanna segir að þeir ellefu sem greindust nú séu inni í tölunni 77 sem hafa greinst með veiruna í tengslum við hópsmit á Landakoti. Einn íbúi Landakots flutti nýverið á Sólvelli og greindist með veiruna í fyrrakvöld.

Vegna smæðar heimilisins þykir ekki æskilegt að reyna að halda fólki í einangrun þar og því verða íbúar fluttir til Reykjavíkur. Ekki liggur endanlega fyrir hvert að sögn Jóhönnu. Allir séu að leggjast á eitt við að leysa þessa stöðu. Það sé fólkinu fyrir bestu að fara til Reykjavíkur og fá þjónustu frá sérþjálfuðu starfsfólki þar.

Hún segir að fólkið sé ekki alvarlega veikt, en það vilji allir reyna að leysa úr þessarri stöðu með sem bestum hætti. Kalla hefur þurft út fólk úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar til að sinna íbúum á Sólvöllum.