Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mál Lilju Alfreðs gegn Hafdísi komið á dagskrá dómstóla

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Fyrirtaka í máli Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, verður eftir tæpar þrjár vikur. Lilja höfðaði mál gegn Hafdísi til að freista þess að fá þeim úrskurði kærunefndar jafnréttismála hnekkt um að ráðning Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins hefði verið brot á jafnréttislögum. Þá hefur ráðherra sagt að úrskurðurinn skapi lagalega óvissu.

Fyrirtaka í málinu er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember. Athygli vekur að stefnandi er Ríkisbókhald en hvorkimennta-og menningarmálaráðuneytið né -ráðherra.

Úrskurðurinn féll í maí en embættið var auglýst í júní í fyrra og þrettán umsóknir bárust. Hæfisnefnd mat fjóra hæfasta og var Hafdís ekki þar á meðal. Auk Páls voru tvær konur og einn karl í þeim hópi.

Í nóvember óskaði Hafdís eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni og einnig öllum gögnum málsins. Hún fékk rökstuðninginn, en ráðuneytið neitaði að afhenda henni öll gögn með þeirri skýringu að einkahagsmunir annarra væru ríkari en hagsmunir hennar. Hafdís gerði þrívegis athugasemdir við þá ákvörðun og fékk loks öll gögn afhent í janúar. Hún kærði ráðninguna til kærunefnd jafnréttismála í mars og úrskurður var kveðinn upp 27. maí. 

Samkvæmt úrskurðinum skorti á rökstuðning

Þar segir að ýmissa annmarka hefði gætt af hálfu menntamálaráðherra við mat á Hafdísi Helgu og Páli. Ráðherra hefði vanmetið Hafdísi samanborið við Pál varðandi menntun, reynslu af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika og hæfni til að tjá sig í riti. Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að verulega skorti á efnislegan rökstuðning menntamálaráðherra fyrir ráðningunni. Ekkert bendi til þess að Páll hafi staðið Hafdísi framar við ráðninguna og ekki hafi tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ráðningunni. Því hafi Lilja brotið gegn jafnréttislögum.

Í lögum um kærunefnd jafnréttismála segir að úrskurðir hennar séu bindandi gagnvart málsaðilum, en þeim sé heimilt að bera úrskurði hennar undir dómstóla. Það þýðir að til þess að hægt sé að ógilda úrskurðinn þurfti Lilja að höfða mál gegn Hafdísi.