Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Löng bílaröð við Dýrafjarðargöng – Eftirvæntingin mikil

25.10.2020 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Vestfirðingar bíða margir spenntir eftir að aka jómfrúarferðina í gegnum Dýrafjarðargöng en þau voru formlega opnuð nú klukkan 14.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Berþóra Þorkelsdóttir opnuðu göngin formlega með óhefðbundnum hætti en þau voru hvorugt á staðnum, heldur í höfuðstövðvum Vegagerðarinnar í Reykjavík.

„Dýrafjarðargöng skipta sköpum fyrir byggðir og búsetu á Vestfjörðum. Göngin leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi, sem oft hefur reynst erfiður og hættulegur farartálmi. Göngin bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár. Með nýjum göngum og vegaframkvæmdum á Dynjandisheiði verður til ný heilsársleið og hringtenging um Vestfirði. Það er ekki spurning í mínum huga að þessar framkvæmdir skila sér margfalt til baka til samfélagsins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í ávarpi sínu í dag.

Fjölmargir lögðu þó leið sína að göngunum til að aka í gegn eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. 

Nemendur Grunnskólans á Þingeyri fóru fyrstir í gegn Dýrafjarðarmegin ásamt Gunnari Gísla Sigurðssyni sem hefur mokað Hrafnseyrarheiði síðan árið 1974. Skólabörnin hafa þrýst á um samgöngubætur og óskuðu strax eftir því við samgönguráðherra í janúar að fá að aka fyrst í gegnum göngin.

Á vef Vegagerðarinnar segir um göngin að með tilkomu Dýrafjarðarganga styttist Vestfjarðarvegur um 27,4 km þar sem leiðin yfir Hrafnseyrarheiði sem lengi hefur verið helsti farartálminn leggst af yfir vetrarmánuðina en þar eru mikil snjóþyngsli og mikil snjóflóðahætta efst á heiðinni. Með þessu er hægt að tryggja góðar samgöngur á Vestfjarðavegi  milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem er stór þáttur í að ná aðalmarkmiðinu um heilsárs vegasamband milli vestfirskra byggða.

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV