Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Læknir í Svíþjóð skoðar í eyru austfirskra barna

25.10.2020 - 13:28
Heilbrigðisstofnun Austurlands er í fremstu röð í fjarlækningum samkvæmt nýrri samnorrænni skýrslu. Læknar í Reykjavík og Svíþjóð skoða sjúklinga á Austurlandi í gegnum netið með aðstoð hjúkrunarfræðings. Tæknin getur í sumum tilvikum leitt til betri þjónustu því hægt er að vinna með myndir og upptökur af einkennum.

Á heilsugæslustöðinni á Eskifirði er eitt af fjórum fjarlækningatækjum á Austurlandi en hin eru á Egilsstöðum, Borgarfirði eystra og Djúpavogi. Þau fara á flakk eftir þörfum og eru búin margs konar myndavélum, hjartarita, öndunarmæli og hlustunartæki til dæmis. „Þar sem við höfum ekki lækni staðsettan á staðnum þá getum við verið í sambandi við hann í gegnum tölvuna en nýtt myndavélar og tæki sem hanga hérna við til að ná í upplýsingar,  segir Sigurjón Valmundsson, hjúkrunarfræðingur hjá HSA.

Sjá vel inn í eyru barna og geta borið saman myndir

„Það er mjög gott að nota þetta til dæmis fyrir börn sem eru með eyrnavandamál, hlustarverk og eyrnabólgu. Þá getum við skoðað þau í eyrun og þá kemur það upp á skjá. Þannig að fjarlæknirinn okkar sem er staddur í Reykjavík eða jafnvel í Svíþjóð getur metið hvort það sé um eyrnabólgu að ræða og sett á sýklalyf ef þarf,“ segir Gunnhildur Ósk Sæbjörnsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá HSA.

„Þetta gerir okkur kleift í minni héruðum að manna læknaþjónustu og leysir þar af leiðandi að einhverju leyti mönnunarvanda minni héraða eða þar sem er langt á milli,“ segir Rólant Dahl Christiansen, læknir í Reykjavík sem gjarnan skoðar sjúklinga á Austurlandi í gegnum fjarlækningabúnað.

Þjónustan gæti versnað nema fjarlækningar komi til

Fjarlækningar hafa líka gefist vel á Suðurlandi og geta sparað óþarfa ferðalög til læknis. Fram kemur í skýrslu Nordregio og Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar að án slíkra lausna sé hætta á að rekstur heilbrigðisþjónustu verði of þungur og versni á sumum dreifbýlissvæðum.

Már Egilsson heimilislæknir bjó á Egilsstöðum og starfaði hjá HSA og hélt því áfram eftir að hann flutti til Uppsala í Svíþjóð. „Gunnhildur, dragðu andann djúpt inn um nefið og svo út um munninn. Það eru hrein öndunarhljóð og hvorki brak né ýl yfir lunga, segir hann þegar hann prófar tækið á Gunnhildi samstarfskonu sinni á Eskifirði með hjálp Sigurjóns. „Að sumu leyti þá erum við að gera hluti sem eru af meiri gæðum heldur en í venjulegu viðtali. Af því að það er tækifæri til þess að skrá meira. Það er tækifæri til að taka myndir, taka upptökur af hlustuninni til dæmis lungnahlustun og hjartahlustun,“ segir Már.

„Við getum geymt allar upplýsingar sem við söfnum á stafrænu formi. Þannig að það er hægt að skoða þetta aftur og aftur og fylgjast með hvernig hlutirnir breytast yfir tíma. Það er einn af stóru kostunum við þessa vél,“ segir Sigurjón.

Gæti nýst sérfræðingum og á hjúkrunarheimilum

„Úr þessum tækjum verða til hljóðmöppur, verða til myndir á stafrænu formi sem hægt er að vista í sjúkraskrá en ekki bara texti. Þannig að þú getur séð nákvæmlega hvað um ræðir þegar þú kemur til baka í eftirfylgd. Núna þegar við höfum verið í um tvö ár að þróa þessa þjónustu hjá okkur þá sjáum við enn frekari möguleika á að nýta þessa tækni. Tengingu við fleiri sérgreinar, tengingu inn á hjúkrunarheimili og fleira og fleira,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV