Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hagkvæmara að veita meiri þjónustu í heimabyggð

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir samfélagið ekki hafa staðið sig í að veita jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hagkvæmara væri að veita meiri þjónustu í heimabyggð.

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða fólki ferðakostnað fyrir tvær ferðir vegna heilbrigðisþjónustu á ári. Þær bæta ekki fjarveru frá vinnu eða uppihald, svo kostnaður fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu getur verið töluverður. María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir ákvörðun um endurgreiðslur í höndum stjórnvalda en Sjúkratryggingar endurgreiddu 544 milljónir í ferðakostnað í fyrra. 

„Ef horft er á heildarkostnaðinn, þ.e.a.s. annars vegar ferðakostnað og annan kostnað sem sjúklingar verða fyrir til þess að sækja þjónustu hingað til Reykjavíkur, og hins vegar kostnaðinn sem að heilbrigðisyfirvöld myndu hafa af því að semja við sérgreinalækna um að veita hlut af sinni þjónustu í heimabyggð, þá held ég nú að niðurstaðan úr því væri að það væri hagkvæmara að reyna að veita meiri þjónustu í heimabyggð,“ segir María. 

Ekki staðið okkur sem samfélag

Ekkert skyldar eða hvetur sérgreinalækna til þess að veita þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Þjónusta þeirra getur því verið tilviljanakennd og fólk þurft að bíða lengi eða ferðast langt til að sækja sér hana. María segir heilbrigðislögin alveg skýr og að það eigi að vera jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hún segir okkur sem samfélag ekki hafa staðið okkur nógu vel í því og úr því þurfi að bæta. Ekki bara í samstarfi við sérgreinalækna, heldur allar heilbrigðisstéttir og heilbrigðisstofnanir út um landið. 

Vilja tryggja aðgengið

Sjúkratryggingar leita nú eftir viðræðum við sérgreinalækna, nýir samningar eiga að tryggja að ákveðin þjónusta sérgreinalækna verði í boði í öllum heilbrigðisumdæmum og segir María útfærsluna samkomulagsatriði. Einhvern veginn þurfi að útvega þjónustuna þannig að hún sé með sem jafnast aðgengi. Sjúkratryggingar séu ekki í vafa um að sérgreinalæknar vilji koma að því að finna út með hvaða hætti það sé best gert.

„Við áttum okkur alveg á því að það er kostnaður fyrir sérgreinalækna og annað heilbrigðisstarfsfólk að fara út á land og veita þjónustu þar og að sjálfsögðu verður að greiða þann kostnað, það er alveg augljóst,“ segir hún. Sjúkratryggingar fái þó ekki aukið fjármagn vegna þessa enda eigi fjárlögin að tryggja þjónustu fyrir alla landsmenn. Í þeim eigi að gera ráð fyrir að íbúar búi ekki allir í Reykjavík.