Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Grunnt á því góða milli Frakklands og Tyrklands

25.10.2020 - 06:12
epa08768597 French President Emmanuel Macron speaks to the press after chairing a meeting with the medical staff of the Rene Dubos hospital center, in Pontoise, in the Val d'Oise, 23 October 2020, as the country faces a new wave of infections  of the novel coronavirus.  EPA-EFE/LUDOVIC MARIN / POOL  MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Sendiherra Frakklands í Tyrklandi hefur verið kallaður heim til samráðs í kjölfar þess að Recep Tayyip Erdogan forseti viðhafði móðgandi ummæli um Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Erdogan sagði Macron þurfa að láta kanna andlega heilsu sína fyrst hann ætlaði að verja veraldleg gildi og að berjast gegn róttækum islamisma.

Macron hefur verið ómyrkur í máli frá því að franskur kennari var myrtur á götu úti fyrr í mánuðinum eftir að hafa sýnt nemendum sínum skopmyndir af Múhammeð spámanni.

„Við hættum ekkert að hafa gaman að skopmyndum" sagði forsetinn fyrr í vikunni. Erdogan, sem er sanntrúaður múslími, spurði hvað þessi maður sem kallaður væri Macron hefði á móti Islam og Múslimum.

Franskur embættismaður á forsetaskrifstofunni segir í samtali við AFP fréttastofuna að ummæli Erdogans séu óásættanleg og að hann ætti að snúa af stjórnarstefnu sinni sem væri hættuleg á alla lund.

Samkvæmt kennisetningum Islam er bannað að gera eða birta myndir af Múhammeð eða Allah. Á hinn bóginn er veraldarhyggja þétt ofin inn í franskt samfélag, hugmyndin er sú að það dragi úr einingu samfélagsins að draga úr málfrelsi til þess að verja tilfinningar ákveðinna hópa.