Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum - Póstkort Íslendinga

Spennan er farin að magnast í Bandaríkjunum nú þegar níu dagar eru til forsetakosninga. Fréttastofa heyrði í nokkrum Íslendingum sem búa í landinu. 

Áki Jarl Láruson, sem býr norðan við Boston í Massachusetts-ríki, er eins og margir búinn að kjósa. „Fólk er búið að vera frekar spennt að kjósa þannig að við erum komin hérna nokkrum dögum fyrir. Það er búið að vera mikið af fánum hér og þar, Trump og Biden, en Trump-fánarnir virðast komast upp og fara aftur niður frekar reglulega. Ég held að fólk sé bara mjög spennt fyrir því að þessu verði öllu lokið fyrir rest,“ segir Áki Jarl.

Segir mikinn klofning í Flórída-ríki

Margrét Th. Dieterich, býr á Flórída en hefur ekki rétt til að kjósa. Hún segir að ríkið sé mjög „rautt“. „Enda ekki bara var COVID aflýst þegar Trump mætti með kosningalestina sína heldur þá má líka finna ofboðslega mikið af stórum trukkum með Blue Lives Matter borða í afturglugganum hjá sér.“ Hún segir að mikið af fölskum upplýsingum séu á sveimi og að fólk treysti ekki á póstkerfið. „Það er ofboðslegur klofningur á milli fylkinga og það er rosalega áhugavert að sjá hvað fólk er hrætt við smá sósíalisma og að borga aðeins meiri skatta en samt á sama tíma borga mörg hundruð dollara á mánuði í sjúkratryggingar og gera enga tengingu þar á milli. Það sem mér finnst verst er þegar fólk er að segja að Biden sé engu skárri, hvað það þýðir fyrir hvern og einnog hvað mun koma út úr því, það kemur bara í ljós,“ segir Margrét.

Margir segjast kjósa Biden því hann er ekki Trump 

Guðbrandur Brandsson, sem býr í Austin í Texas, segir að meirihluta íbúa hafi stutt Repúblikana síðan árið 1976 þegar Carter varð forseti. „En núna telja menn að það sé spurning um tíma þar til Texas verði Demókratafylki,“ segir hann. „Kemur þar tvennt til, í fyrsta lagi að fólki af spænskum uppruna fjölgar hraðar heldur en öðrum hópum og svo hins vegar að það er mikið af fólki sem að kemur frá Demókratafylkjum eins og til dæmis Kaliforníu og flyst til Texas. Sem hefur þau áhrif að fylkið er hreinlega skráð ljósrautt.

Guðbrandur hefur verið að spyrja fólk hvers vegna það kjósi þann sem það valdi. „Satt best að segja þá eru flest öll svör sem ég hef fengið varðandi Biden einfaldlega þau að hann er ekki Trump. Hann þykir á margan hátt ekkert spennandi valkostur en fólk er að kjósa hann til að kjósa ekki Trump,“ segir hann.

Hann telur að kjósendum Trump megi skipta í tvo hópa. „Fólk með lægri tekjur er svolítið að horfa á að það vilji ekki þennan kommúnisma sem Trump hefur verið duglegur að boða og að Ameríka muni þá kannski bara breytast í Venesúela Norður-Ameríku og það verði þá bara mikið af fólki sem verði á sósíalnum, eða á jötunni.“ Hann segir að þessi hópur sé í einhverjum tilvikum sá sem óttist að innflytjendum fjölgi og að þeir þurfi að fá bætur frá ríkinu.

„Meðal fólks sem hefur talsvert hærri tekjur og rekur minni fyrirtæki þá er það fólk sem hefur áhyggjur sömuleiðis af því að skattheimta fari úr hófi fram þegar Biden er við völd og að Obama-care hafi ekki reynst eins vel fyrir lítil fyrirtæki og skapað einfaldlega mikinn kostnað og minna af valmöguleikum fyrir fólk í heilbrigðismálum.“

Fólk er bæði spennt og leitt á kosningabaráttunni 

Elsa Blöndal, sem býr rétt fyrir utan Philadelphiu í Pennsylvaniu, og fylgist vel með kosningabaráttunni. „Í mínu fylki virðist mér fólk vera bæði spennt og um leið leitt á þessari baráttu. Hér eru áróðursskilti út um allt og helstu málefnin sem eru til umræðu eru kórónuvírusinn, efnahagsmál og heilsugæsla,“ segir hún. Pennsylvania er talið eitt af þeim ríkjum sem gætu ráðið afar miklu um útkomu kosninganna og segir Elsa þau finni vel fyrir því. „Þetta fylki er mjög skipt í stuðningi við frambjóðendur. Inni í borginni og í úthverfum er Biden yfir en Trump er yfir í litlu sveitarfélögunum.“ Trump fékk flest atkvæði í fylkinu síðast en Elsa segir það tilfinningu sína að svo verði ekki núna.

Líst betur á stefnu Trumps en Bidens í skattamálum 

Pétur Sigurðsson, fasteignasali í Orlando í Flórída, þurfti að hugsa sig vel um hvorn hann ætti að kjósa, Trump eða Biden. „Eftir að hafa skoðað skattatillögur beggja aðila að þá var það auðvelt fyrir mig að gera upp hug minn. Ég kýs Trump því að hann mun vernda minni fyrirtækin og lofa þeim að blómstra en Biden, hann stefnir að því að ráðast á smáfyrirtæki, ásamt þvi að hann ætlar að reyna að leggja í rúst fasteignamarkaðinn og ég sem fasteignasali, ég get ekki sætt mig við það,“ segir Pétur. 

Mikið er lagt upp úr því að sem flestir nýti kosningarétt sinn í Flórída, að sögn Péturs, í gegnum tíðina hafi kjörsóknin verið heldur lök. Hann segir að líklega falli met núna þar sem það stefnir í mikla kjörsókn. „Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist en ég á ekki von á neinum látum og menn fara að lögum þannig að þetta er spurning hvort það verði spennandi kosninganótt eins og síðast því að skoðanakannanir, þær eru núna á sama stað og þær voru fyrir fjórum árum. Þær voru allar Hillary í vil og svipuð prósenta með Hillary umfram Trump. En við sjáum til, þetta verður spennandi og það er gaman að þessu.“ 

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá póstkort frá Íslendingum sem búsettir eru víða um Bandaríkin. Þau lýsa stemmingunni í ríkjunum sem þau búa.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir