Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forsætisráðuneytið lætur Hagstofu rannsaka launamun

Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðuneytið undirritaði í gær samning við Hagstofu Íslands um að gera rannsókn á launamun kvenna og karla. Um er að ræða fyrstu rannsókn á launamun kynjanna frá því að lög um jafnlaunavottun tóku gildi árið 2018.

 

Á vef Stjórnarráðsins segir að dagsetning undirritunarinnar sé táknræn því í gær voru 45 ár liðin frá því að íslenskar konur lögðu niður vinnu, á kvennafrídaginn á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975, til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna og krefjast jafnréttis i launum.

Þar segir að þess sé vænst að rannsóknin gefi vísbendingar um hvaða árangri jafnlaunavottun hefur skilað til að uppræta kynbundinn launamun og eiga niðurstöður rannsóknarinnar að liggja fyrir næsta vor. Síðasta rannsókn um launamun karla og kvenna náði til ársins 2016 og mikilvægt þykir að þróa áfram aðferðir til að reikna út á enn nákvæmari hátt óútskýrðan launamun kynjanna og mun ný rannsókn Hagstofunnar taka mið af því, samkvæmt fréttinni á vef Stjórnarráðsins.