„Myndin er um sundlaugar á Íslandi, það er að segja kúltúrinn í sundlaugum,“ segir Jón Karl við Menninguna. „Ég byrjaði að taka 2014 og hef verið að ferðast um landið og er að upplifa með myndavélinni fólk sem getur sagt mér sögur og fróðleik um það sem er að gerast í lauginni í dag.“
Sundlaugar eru líka félagsmiðstöðvar að sögn Jóns Karls. „Meðalaldur fólksins í myndinni er um 80 ár, þetta er fólk sem hefur stundað sund frá því að það lærði að synda í polli og sjó en upplifir svo seinna á æviskeiðinu að komast í sund.“ Hann segir aðalástæðuna fyrir því að fólk fer í sund sé til að hitta annað fólk. „Fólk leggur líka mikið á sig og ferðast langa leið til að komast í sund. Það er dálítið áberandi í myndinni. Ég held að það sé ekki til eins góður lúxus á Íslandi og að fara í sund, sérstaklega þegar þú kemur upp úr lauginni. Þá ertu að upplifa eitthvað sérstakt.“
Farsóttin hefur sett strik í reikninginn. „Aðalatriðið er að ég get ekki klárað myndina. Ég á eftir að fara á nokkra staði, Akureyri, Dalvík, Húsavík og nokkra aðra staði, og bíð eftir því að komast þangað og klára að mynda.“
Rætt var við Jón Karl um sundlaugar í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.