
Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands greindi frá því á Twitter að í samráði við Priti Patel innanríkisráðherra var hernum veitt leyfi til leggja til atlögu þar sem grunur var uppi um að verið væri að ræna skipinu Nave Andromeda.
Skipið, sem var um tíu kílómetra undan ströndum Wight-eyju, er skráð í Líberíu en hinir handteknu eru taldir vera frá Nígeríu. Að sögn varnarmálaráðherra er málið nú til rannsóknar hjá lögreglu.
Nave Andromeda lagði upp frá Nígeríu í síðustu viku og átti að leggja að bryggju í Southampton fyrr í dag. Mikill viðbúnaður var við aðgerðirnar, auk þeirra hermanna sem fóru um borð flögruðu tvær þyrlur yfir skipinu og skip strandgæslunnar beið skammt undan.
Talsmaður Tatham lögfræðistofunnar sem sinnir málefnum útgerðar skipsins fullyrðir að ekki hafi verið ætlun laumufarþeganna að ræna skipinu. Þeir hafi streist á móti þegar áhöfnin hugðist loka þá inni í káetu eftir að hún komst á snoðir um vist þeirra um borð.
Annar heimildamaður tengdur útgerðinni tjáði BBC að áhöfnin hafi lengi vitað af laumufarþegunum en þeir hafi gerst ofstopafullir þegar skipið nálgaðist Bretlandsstrendur. Þá hafi skipverjar leitað skjóls á öruggu svæði og kallað eftir aðstoð.