Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Aldrei fleiri á Landspítala með COVID

25.10.2020 - 20:10
Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso / Ljósmynd
Aldrei hafa fleiri verið með COVID á Landspítala í einu. Á þriðja hundrað starfsmanna spítalans er í sóttkví og tugir í einangrun með sjúkdóminn. Spítalinn starfar á neyðarstigi í fyrsta sinn.

52 eru á Landspítala  með sjúkdóminn. Stór hluti þeirra kemur af Landakoti eftir að stór hópsýking kom þar upp. Þeir eru á aldrinum áttræðs til tíræðs.

Minnst 77 smit hafa verið rakin til þessarar hópsýkingar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hún sé sérstaklega alvarleg. „Bæði að umfangi og svo í hvernig hóp hún kom upp í, þ.e.a.s. í þessum viðkvæma hópi, þá er þetta mjög alvarleg hópsýking,“ segir Þórólfur. „Við þurfum líka að skoða hvort við fáum einhverjar afleiddar sýkingar út frá þessu smiti, frá starfsmönnum, frá aðstandendum og svo framvegis.“ Það muni ráða úrslitum þegar kemur að því að leggja til hvort samkomubann verði framlengt eða jafnvel hert.

Þarf að skoða hvort verkferlar hafi verið brotnir

Sýkingin hefur dreift sér víðar. Meðferðum á annað hundrað skjólstæðinga Reykjalundar verður frestað í næstu viku, eftir að veiran greindist þar. Þrír sjúklingar, sem eru með veiruna, komu frá Landakoti á Reykjalund í síðustu viku. Þá er meirihluti íbúa á öldrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka smitaður. Einn þeirra kom af Landakoti. 

„Við erum núna að bregðast við aðsteðjandi vá en gerum okkur grein fyrir að það þarf að skoða nákvæmlega hvort verkferlar hafi verið brotnir og í hverju það var fólgið,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala.

Talið er að smitið á Landakoti hafi borist þangað með starfsmönnum. „Líklegur atburður er að kringum tólfta október sl. hafi starfsmenn borið smit inn á Landakot,“ segir Már. Smitin uppgötvuðust aftur á móti ekki fyrr en tíu dögum síðar. Spurður hvort einhver hafi sýnt einkenni á því tímabili segir Már að ekki sé vitað til þess að starfsmenn hafi verið með einkenni. Aftur á móti hafi einhverjir sjúklingar sýnt einkenni og sýni verið tekin úr þeim, sem voru neikvæð. 

Margar hópsýkingar raktar til fólks sem fer veikt til vinnu

Þórólfur ítrekar að fólk fari ekki til vinnu ef það er með einhver einkenni sjúkdómsins, enda hafi margar hópsýkingar byrjað þannig. „Það er þetta með þessi skilaboð sem við erum alltaf að senda út og sérstaklega þau skilaboð að veikt fólk haldi sig heima, sérstaklega veikir einstaklingar - starfsmenn sem eru að vinna með viðkvæma hópa haldi sig heima og ég vil líka skora á vinnuveitendur og yfirmenn á hverjum einasta vinnustað, að sjá til þess á hverjum degi að þessi skilaboð komist til skila til allra,“ segir Þórólfur. „Núna í þessari hópsýkingu og í öðrum hópsýkingum, þetta er veiki parturinn í því að svona dreifðar og miklar hópsýkingar koma upp.“

Nýta legurými af öðrum deildum 

Um 250 starfsmenn Landspítala eru í sóttkví og öllum valkvæðum aðgerðum verður frestað. Már segir að ein mesta áskorunin sé að fá starfsfólk. Þórólfur segir að við séum ekki enn komin á það stig að boða fólk til starfa með vísan í almannavarnarlög. „Ef að það gerist að kerfið ræður ekki við þetta þá eins og það er skipulagt núna, þá verðum við að hugsa ný úrræði til að  fá fólk til starfa,“ segir Þórólfur. 

Viðbragðsstig Landspítala eru þrjú; óvissustig, hættustig og neyðarstig. Þetta er í fyrsta sinn sem Landspítali er settur á neyðarstig eftir að viðbragðsáætlun spítalans tók gildi árið 2006. „Við þurfum að hagnýta okkur öll úrræði sem við höfum innanhúss þvert á allar sérgreinalækningar. Nota legurými til dæmis á skurðsviði, á barnasviði, á kvennasviði og jafnvel á geðsviði og svo framvegis. Þannig að við rjúfum í rauninni alla innri múra til þess að byggja upp aðstöðu til þess að sinna fólki,“ segir Már.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir þrjú stór verkefni framundan: Að tryggja COVID-sjúklingum viðeigandi þjónustu, að ná böndum á þessa hópsýkingu og búa þannig um hnútana að fólk með önnur vandamál geti leitað til spítalans og fengið viðeigandi þjónustu. Hann segir að hópsmitið hafi komið stjórnendum spítalans á óvart. „Vegna þess að þriðja bylgjan var á niðurleið þá kom þetta okkur á óvart að þetta skyldi koma akkúrat núna, en í sjálfu sér þá vonum við alltaf það besta en búumst við því versta,“ segir Páll.