Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aðgerðir ekki hertar vegna hópsýkingar á Landakoti

25.10.2020 - 16:03
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að ekki standi til að herða samfélagslegar aðgerðir þrátt fyrir hópsmit sem upp er komið á Landakoti og fleiri sjúkrastofnunum. Hann brýnir fyrir þeim sem vinna í kringum viðkvæma hópa að halda sig sem mest utan fjölmennis og fara varlega.

Hann segir að þær tölur sem liggja til grundvallar varðandi samfélagslegt smit hafi verið hagstæðar undanfarna daga og því sé ekki ástæða til að herða samfélagslegar aðgerðir að svo stöddu. Ef smit aukist út frá hópsýkingunni verði staðan endurmetin nú sem endra nær. Hann skorar á vinnuveitendur og starfsmenn að koma þeim skilaboðum til allra sem sýna einhver einkenni að halda sig heima.

„Veikt fólk haldi sig heima, sérstaklega veikir einstaklingar, starfsmenn sem eru að vinna með viðkvæma hópa haldi sig heima. Og ég skora á vinnuveitendur og yfirmenn á vinnustöðum að sjá til þess að þessi skilaboð komist til skila. Það verði gerð áskorun um að fólk haldi sig heima ef einkenni koma fram,“ segir Þórólfur.

Þessi hópsýking komi fram á versta stað og í viðkvæmasta hópnum. Hún geti komið upp hvar sem er. Það sé viðbúið að þó að samfélagslegt smit sé á niðurleið skjóti hópsmit sem þetta upp kollinum.  Sérstök ástæða sé til að hvetja fólk til að fara áfram varlega næstu mánuði.

Alma Möller segir það alvarlegt að fá smit inn spítalann. Staða spítalans var orðin góð og var ráðgert að auka valkvæðar aðgerðir en nú hefur aftur þurft að draga úr þeirri starfsemi. Landspítalinn ætlar sjálfur að draga úr valkvæðum aðgerðum hjá sér. Alma Möller lagði fram tillögu til heilbrigðisráðherra þess efnis að valkvæðum aðgerðum utan Landspítala verði frestað. Hún býst við því að hún verði samþykkt.

„Ég fékk erindi rétt fyrir þennan fund þar sem mælst er til að dregið verði úr valkvæðum skurðaðgerðum. Ég hyggst leggja það til við heilbrigðisráðherra síðar í dag,“ segir Alma.

Það eru aðgerðir sem gætu leitt til innlagnar á spítalann og er ætlað að létta undir starfsemi hans.