Vinkonurnar grétu sig í svefn yfir Rob Lowe

Mynd: RÚV/St. Elmos Fire / Samsett mynd

Vinkonurnar grétu sig í svefn yfir Rob Lowe

24.10.2020 - 14:19

Höfundar

„Þessi mynd ásamt Breakfast Club og öðrum leiddu mig í gegn um unglingsárin,“ segir söngkonan Margrét Eir Hönnudóttir um kvikmyndina St. Elmo's Fire sem er sýnd í Bíóást á RÚV í kvöld.

St. Elmo's Fire er frá árinu 1985 og er leikstýrt af Joel Schumaker en í aðalhlutverkum eru Emilio Estevez, Demo Moore og Rob Lowe. Í myndinni segir frá ungu fólki sem reynir að fóta sig í tilhugalífi og tilvistarkreppu áranna eftir háskólanám, og hún er oft sett í hóp með unglingamyndum Johns Hughes frá sama tímabili, eins og Margrét Eir samsinnir: „Ég elskaði þessar myndir. Þetta eru myndir um vináttu, átök, ástina og ástarsorg. Mér fannst eins og ég væri að upplifa þetta allt með þeim. Þessar myndir voru mínir vinir í gegn um unglingsárin.“

Það sterkasta í myndinni að mati Margrétar er vinasambandið milli aðalpersónanna. „Hvað helst sterkt í gegn um súrt og sætt. En það gengur á ýmsu, eins og í lífinu. Þau eru saman í Háskóla og fara svo út í lífið og þá breytast þau og sambandið með.“ Hún segir myndina eldast mjög vel. „Þetta á alltaf við, unglingadrama og vinadrama. Ef þetta er vel skrifað þá stendur hún.“ Allur leikur í myndinni er mjög góður en Margrét segir eina afdráttarlausa stjörnu hennar. „Rob Lowe. Ég er búin að heyra í nokkrum vinkonum og þær fóru strax að tala um hann. „Ohh ég var svo ástfangin af Rob Lowe, ég hefði gefið allt í heiminum til að hitta hann.“ Bara grétu sig í svefn því þær langaði svo að hitta Rob Lowe.“

Önnur stjarna myndarinnar segir Margrét svo vera tónlistina, þar sem hæst beri titillagið sem John Parr syngur. „Það er svolítið eins og Eye of the Tiger, maður rís upp og finnst maður geta hvað sem er, mér líður alltaf þannig þegar ég hlustaði á það.“

St. Elmos Fire er dagskrá RÚV klukkan 22:30 í kvöld.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Er þetta leikari eða alvöru górilla?“

Kvikmyndir

„Enginn í þessari mynd er hetja“

Bókmenntir

Bíóást: Bill Murray stelur senunni

Kvikmyndir

Bíóást: „Takið eftir myndmálinu“