Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skáldið skemmtir sér og losnar undan oki ljóðrænunnar

Mynd: Einar Falur / Dimma

Skáldið skemmtir sér og losnar undan oki ljóðrænunnar

24.10.2020 - 16:41

Höfundar

Bókarýnir Víðsjár segir Draumstol eftir Gyrði Elíasson vera á skjön við viðteknar hugmyndir um hvernig ljóðabækur eigi að vera. „Skáldið er líka að skemmta sér aðeins, ekki með neinum gauragangi, heldur með léttum húmor blönduðum saman við dálitla kaldhæðni hér og þar.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Skáldin eiga að skemmta sér því þá tekst að skemmta lesendum. Oftlega finnst okkur að ljóð eigi að vera djúpvitur og huglæg, tilfinningaríkir textar tamdir af formi sem markar þau frá öðrum textategundum, við sjáum það á hrynjandi, stuðlum, rími, nú eða stuttum línum á blaði þar sem setningar eru brotnar upp, en merkingunni haldið saman í keðju tengdra orða og hugtaka. Síðan er það hin óskilgreinda ljóðræna sem svífur yfir vötnum.

Þessi ljóðabók Gyrðis Elíassonar er svolítið á skjön við þessar viðteknu hugmyndir án þess þó að þykjast vera einhver bylting. Þetta eru ljóð eins og við erum vön nútímaljóðum, án ríms og reglubundinnar hrynjandi, þau hanga saman á merkingarkeðjum sínum, bæði innan hvers ljóðs og einnig innan bókarinnar í gegnum merkingarþemu eins og drauma, lauf, umbreytingar, nú eða hengirúm, að e.e. cummings ógleymdum. En skáldið er líka að skemmta sér aðeins, ekki með neinum gauragangi, heldur með léttum húmor blönduðum saman við dálitla kaldhæðni hér og þar. Orðaleikir koma fyrir og sumt af kvæðunum hefur á sér afórískan blæ, nokkurs konar hnyttiyrði í ljóði. Jafnvel má finna dálitla paródíu á hið alvöruþrungna ljóð á stöku stað.

Bókin byrjar samt á nokkrum afbragðsgóðum ljóðum í klassískum skilningi á nútímaljóðum, en svo kemur „Ljóð dagsins I“ eins og það heitir og er mælt fyrir munn e.e. cummings, nokkurs konar klippimynd af einni málsgrein:

Pav
lov

fara
í
Hund
ana
fyr

            ir

                        mé

r

(11)

Skáldið að skensa hugsaði ég fyrst,  þangað til ég fór að sjá fleiri í þessum dúr dúkka upp á leiðinni til enda. Það er næstum eins og verið sé að gera góðlátlegt grín að skáldskapnum, eða hvernig ber að skilja þetta:

HENGIRÚMIÐ

Meðan ég les
í sólinni
fellur skuggi
af laufblaði
á síðuna
Það reynist vera
besta ljóðið
í bókinni

(13)

Fleiri ljóð um ljóð eða ljóðskáld er að finna í bókinni, Dylan Thomas fær dálítið spark í ljóðinu „Samkennd“, ljóðið „Ósar“ er einnig dálítið svartsýnt fyrir hönd ljóðsins eins og ég skil það þar sem þau á endanum falla öll „í sömu átt, / út í þagnarhafið“ (75). Ljóðið „Haustljóð“ að vísu ekki um beinlínis um ljóðagerð, en það hljóðar svo með dálítilli hýperbólu: „Þegar heiðarnar sölna / og árleg helför / sauðkindarinnar / er hafin / eftir regnvotum / moldarstígum“ (78). Vissulega eru lömbin rekin til slátrunar á hausti hverju, en helfarar? Auðvitað er þetta retorísk líking, það er eins og ljóðformið sjálft fari þessa síðustu helgöngu lambanna. Lokaljóðið um ljóð heitir svo „Ljóðið sem hvarf“ og er ljóð um ljóð sem ekki er í bókinni, né verður nokkru sinni. Þessar allt að því skáldskaparfræðilegu pælingar eða ljóð um ljóð eru mjög áhugaverð, þótt einhverrar svartsýni gæti, eða að minnsta kosti kaldhæðni.

Skemmtunarljóðin eru nokkur eins og til að mynda „Áföll í sögu þjóðar“ sem ætti að gleðja knattspyrnuáhugamenn. Það er stutt og hljóðar svo: „Svarti dauði / 1402 // Idrætsparken / 14 02“ (79). Virkar jafnvel betur á prenti. Ljóð eins „Hafnir á Reykjanesi“, „Frávik“, „Framtíð B“ og ljóðið „Úr dagbók Stevensons“ um hans frægustu söguhetju, doktor Jekyll, fellur líka þarna undir, auk þess sem það þjónar öðru lykilþema sem ég kem að á eftir. En það er gaman að geta brosað út í annað á milli ljóða, ekkert að því. Stíllinn er svo dálítið í samræmi við þennan léttleika, sem dansar við prósann bókina í gegn og losar hana við ok ljóðrænunnar sem getur gert sum ágætlega ort kvæði tilgerðarleg í besta falli.

Skáldið sendir út nokkur alþjóðleg skeyti, við fáum aðeins að heyra um sextándu aldar listamanninn Albrecht Dürer sem ekki hafði séð apa í langan tíma, annað dæmi um kaldhæðnislegan húmor ljóðmælanda. Dürer var líka skapari frægrar málmristu sem kölluð er Melencholia I, þótt hún sé ekki nein fyrirmynd ljóðanna þriggja sem bera nánast sama heiti í bókinni og raunar eins ljóðs í Nokkrum almennum orðum um kulnun sólar. Við fáum einnig að heyra af tónskáldinu Antoni Bruckner sem kastað er út í garðsauga og þýska skáldið Hölderlin er í turninum sínum í draumi. En helsta vísunin er til Óvíðs og er hún bein í ljóðinu „Ummyndanir“ og þar er þema sem víða má finna í bókinni og er kannski lykillinn að henni.

Fyrsta ljóðið „Umbreyting“ slær tóninn að vissu marki og þar er hugsanlega annað mikilvægt þema, vötnin eða fljótin sem streyma út í „þagnarhaf“. Ám og vötnum bregður fyrir ýmsum betri ljóða bókarinnar. Umbreytingar og óstöðugleiki merkingar endurspeglast einnig í ljóðum um drauma og í titilljóðinu, „Draumstol“ skynjum við firringu ljóðmælanda sem ekki fær notið drauma sinna sem hann þó veit að hann dreymir. Ef til vill eru það örlög okkar margra sem innbyrðum draumana í gegnum Netið og endalausar seríur um sama efnið. Við höfum hreinlega útvistað draumum okkar endanlega.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Gyrðir og Jón Kalman tilnefndir til franskra verðlauna

Bókmenntir

Hrollvekjandi sögur og kunnugleg þemu

Bókmenntir

Fórnargjald listarinnar

Bókmenntir

Kann vel við tilbreytingaleysið