Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sjúklingur á Vogi smitaður

24.10.2020 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúklingur á sjúkrahúsinu Vogi greindist í dag með COVID-19. Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir segir í samtali við fréttastofu að verið sé að kortleggja smitið og finna út hverjir þurfa í sóttkví. Ljóst sé að það er einhver hópur.

DV greindi fyrst frá smitinu, en einstaklingurinn sem greindist fór að finna fyrir einkennum eftir að hafa verið skimaður fyrir innlögn og þá verið neikvæður.

Valgerður segir að fleiri en færri verði sendir í sóttkví til að byrja með, til öryggis, og það séu bæði sjúklingar og starfsmenn í þeim hópi. Smitið sé þó svolítið afmarkað innan sjúkrahússins.

Hún segir of snemmt að segja til um hvaða áhrif þetta hefur á starfsemina, en það muni koma í ljós á næstunni.

Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, sendi á sjöunda tímanum nánari upplýsingar um smitið til fjölmiðla:

„Viðeigandi ráðstafanir í samvinnu við sóttvarnayfirvöld eru í gangi. Þrátt fyrir að sjúklingar séu skimaðir áður en að þeir leggast inn á Vog og mjög góðar sóttvarnir séu á spítalanum þá kom upp eitt smit. Vogi er skipt upp í álmur og er nú búið að loka þeirri álmu sem viðkomandi sjúklingur dvaldi á og nokkrir sjúklingar hafa verið sendir heim í sóttkví.“