Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Rasismi innan lögreglu „gróf mistúlkun á mínum orðum“

Mynd: Samsett - Morgunblaðið og RÚV / Samsett - Morgunblaðið og RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að orð sín í máli lögreglukonunnar sem bar umdeild merki á búningi sínum, hafi verið afbökuð. Því fari fjarri því að hún telji lögregluna upp til hópa vera rasista. 

„Það er gróf mistúlkun á mínum orðum. Ég var heldur ekki að gefa það í skyn, enda er ég alls ekki á þeirri skoðun. Ég er bara mjög sorgmædd yfir þessari afbökun á orðum mínum því ég meinti aldrei að lögreglan væri upp til hópa rasistar,“ sagði Þórhildur Sunna í Vikulokunum á Rás eitt.

Hún segir það fyrst og fremst vera hlutverk löggjafans að vera vakandi fyrir birtingarmyndum rasisma og fordóma innan löggæslustofnana á heimsvísu. Hún sé ánægð með viðbrögð yfirstjórnar lögreglu í málinu, að þetta verði tekið föstum tökum. Hún segist trúa því að krafa um afsögn hennar byggist á þessum orðum sem hefðu verið mistúlkuð og því ráði hún ekki mikið í það.

„Mér fannst mjög gott að sjá þessi viðbrögð, enda finnst mér mjög mikilvægt að lögreglan sé hluti af samfélaginu en líka að lögreglan upplifi sig sem hluta af samfélaginu,“ segir Þórhildur Sunna.

Hún segist þó skilja vel að lögreglan upplifi sig á stundum eina. Þrengt hafi verið að embættinu fjárhagslega og fækkað hefur verið í röðum lögreglu.

Mynd með færslu
 Mynd: Haakon Broder Lund - .
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Gott tækifæri fyrir lögregluna að auka traust

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ítrekaði að myndin sem fór á flug í vikunni væri nokkurra ára gömul og það væri ekkert sem benti til þess að einhverjir hafi orðið fyrir þeirri upplifun sem þessi tilteknu merki eiga að gefa til kynna. Þá séu merkin innanklæða.

Hann sagði að ef til vill voru ekki allir lögreglumenn meðvitaðir um breyttar meiningar á þessum merkjum og tók undir að lögreglan læri af þessu. Þó hefði hann viljað sjá að rætt hafi verið beint við yfirstjórn lögreglu í stað þess að halda út í þessa ofsafengna umræðu.

Þórhildur Sunna hefur farið fram á að fulltrúar lögreglu mæti á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna málsins. Vilhjálmur segir það eðlilegt.

„Mér finnst ekkert að því að lögreglan komi og upplýsi ALþingi hvernig hún er að vinna sín mál í breytti samfélagi. Það er þá bara gott tækifæri fyrir lögregluna að auka traust sitt gagnvart Alþingi,“ sagði Vilhjálmur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Mikilvægt að uppfylla ákveðið hlutverk

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, var áður saksóknari og sagði mikilvægt að lögreglumenn upplifi sig í ákveðnu hlutverki.

„Þetta er ákveðið hlutverk. Það er alveg sama og með dómara í dómssal og saksóknara í skikkjunni sinni, að um leið og þú klæðist þessum búningi þá ertu í ákveðnu hlutverki og því fylgja ákveðnar skyldur. Þú átt því að forðast það á allan mögulegan hátt að framkalla einhver þau hughrif að fólk geti rýnt í þínar persónulegu skoðanir,“ sagði Þorbjörg.

Hún sagði jafnframt að á tíma sínum sem saksóknari hafi hún aldrei upplifað það að rasísk sjónarmið væru áberandi innan lögreglunnar.