
Óbreytt lánshæfiseinkunn ríkissjóðs– horfur neikvæðar
Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli m.a. háa landsframleiðslu á mann, góða stjórnarhætti, hátt þróunarstig og góða umgjörð viðskiptalífsins. Viðsnúningur hafi orðið í opinberum fjármálum í kjölfar efnahagssamdráttar vegna faraldursins. Einhæfur útflutningur og smæð hagkerfisins draga lánshæfiseinkunn landsins niður.
Kosningar á næsta ári gætu leitt til slakara aðhalds í opinberum fjármálum. Aftur á móti hafi breið pólitísk samstaða um að byggja upp viðmótsþrótt í opinberum fjármálum og skuldalækkun seinustu ára stutt trúverðugleika ríkisins til lengri tíma.
Neikvæðar horfur endurspegla hækkun skulda sem hlutfalls af landsframleiðslu og hættu á að faraldurinn verði langvarandi og færist í aukana sem myndi hafa neikvæð áhrif á efnahagslífið og fjármálakerfið. Það sem gæti leitt til lækkunar lánshæfiseinkunar er til dæmis neikvæð skuldaþróun, veikari hagvaxtarhorfur og verulegt útflæði fjármagns að mati Fitch Ratings.