Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Látnir vinna veikir segir háseti á COVID–togaranum

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Erfitt var að horfa upp á þá veikustu, segir háseti á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni þar sem nær allir veiktust af COVID. Fara hefði átt í sýnatöku í stað þess að láta menn vinna veika en ekki líðist að andmæla skipstjóranum. Þriggja daga einangrun var í boði fyrir þá fyrstu sem veiktust um borð. Þremur vikum síðar var fyrst farið í sýnatöku. Hásetinn segir að eftir að þeim var tilkynnt um smitið hafi þeim verið sagt að halda áfram að vinna. 

Arnar Hilmarsson er 21 árs og hefur verið háseti í fimmtán túrum á Júlíusi Geirmundssyni. Af 25 skipverjum veiktust 22 af COVID, þeirra á meðal Arnar. Sá yngsti í áhöfninni er 19 ára og þeir elstu komnir á sjötugsaldur.

Var ekki sendur í einangrun og hélt áfram að vinna

Veiðiferðin hófst 26. sept. Sá fyrsti veiktist eftir tvo daga og var settur í þriggja daga einangrun. Og eins var gert við næstu fjóra. Þá var kominn 6. eða 7. október. 

„Og í kringum það leyti byrja ég að finna fyrir einkennum. Varst þú þá settur í svona stutta einangrun? Nei, ég var ekki settur í neina einangrun,“ segir Arnar.

Varðstu mikið veikur?

„Já, ég fann fyrir svima, hausverk, hálsbólgu og hósta.“

Arnar hélt áfram að vera í káetu með þeim fyrsta sem veiktist. Þar slakaði hann ekki á. Nei, hann vann allar sínar vaktir og hvíldi sig á frívöktum. Fljótlega byrjuðu einkenni svo að spretta upp um alla áhöfn.

Erfitt að horfa á veikan starfsfélaga

Hræðilegt var að horfa upp á þá sem veikastir urðu. 

„Sá sem varð veikastur er einn harðasti maður, sem ég veit um, og hann lét sig hafa það í einhverjar þrjár vaktir að vinna veikur. Svo var hann einfaldlega orðinn svo slæmur að hann bara gat það mögulega ekki. Það var bara erfitt að horfa upp á hann færa sig upp af bekknum og upp í sjúkraklefa.“

Ekki eðlilegt að vera ekki sendir í sýnatöku

Hann segir að sér skiljist að beðið hafi verið um að fara í land í sýnatöku:  

„Þar sem að skipstjórinn hafði samband við sóttvarnalækni í byrjun túrsins þá tókum við eiginlega því sem sjálfsögðu að þetta væri allt gert í samráði við hann.“

Auðvitað hlyti sóttvarnalæknir eða umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum að vita, hafi hann heyrt af öllum þessum veikindum, hvernig réttast væri að breðgast við. Sjálfum fannst Arnari ekki í lagi að haldið væri áfram með svona marga veika. 

„Nei, það er alls ekki eðlilegt.“

Sýnataka neðst í forgangsröðinni

Þegar farið var að landi um síðustu helgi var það ekki vegna sýnatöku. Það var brælustopp og ekki er hægt að veiða í brælu. Svo þurfti líka að taka olíu. En það var líka farið í sýnatöku. 

„Þannig að í rauninni var skimunin þriðja í forgangsröðinni.“

Tilkynntu smitið og svo beðnir að vinna

Tuttugu klukkustundum eftir sýnatöku, á mánudaginn, kom skipstjórinn til þeirra niður í stakkageymslu og sagði þeim niðurstöðuna:

„Það væri COVID-smit um borð. Þá var okkur sagt að klára aflann og hefja lokaþrif á skipinu.“

Í þrifum felst háþrýstiþvottur með heitu vatni þannig að mikil gufa myndast. Einn veiku skipverjanna fékk svo mikið í lungun að hann þurfti frá að hverfa. En hreyfðu skipverjar ekki við mótmælum?

„Andmæli beinlínis gegn skipstjórunum á frystitogara líðst ekki.“

Alvarlegast að halda veikum mönnum að vinnu

Skipverjarnir eru sammála um að brotið hafi verið á þeim. En hvað finnst Arnari vera alvarlegasta brotið?

„Það alvarlegasta var að halda mönnum nauðugum við vinnu á meðan þeir voru veikir.“

Arnar segir einu viðbrögð Hraðfrystihússins Gunnvarar hafa verið almenna yfirlýsingu. Honum koma viðbrögð fyrirtækisins ekki á óvart: 

„Hegðun HG í þessum kórónuvírusskandal núna er í nákvæmu samræmi við hegðun fyrirtækisins gagnvart starfsmönnum hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna í fortíðinni.“

Ertu eitthvað hræddur um að missa þína stöðu á skipinu út af þessu?

„Tjáning mín á málinu er óendanlega verðmætari en starf mitt þarna um borð.“

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV