Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Kosið verður um nýja stjórnarskrá Síle á sunnudag

24.10.2020 - 02:58
epa08769196 Demonstrators participate in a new day of protests against the government of the President of Chile, Sebastian Piñera, in Plaza Italia, now known as Plaza de la Dignidad, in Santiago, Chile, 23 October 2020.  EPA-EFE/Elviz Gonzalez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Almenningur í Síle gengur að kjörborðinu á sunnudag í þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá landsins. Á síðasta ári safnaðist fólk út á götur og torg í landinu í miklum mótmælum til að krefjast nýrrar stjórnarskrá.

Gildandi stjórnarskrá er frá árinu 1980, þegar Augusto Pinochet einræðisherra sat að völdum. Hann rændi völdum árið 1973 þegar hann steypti Salvador Allende af stóli.

Pinochet sat að völdum til 1990, var æðsti yfirmaður hersins til 1998 og öldungadeildarþingmaður til 2001. Skömmu síðar var hann ákærður fyrir brot sem hann framdi á stjórnartíð sinni en lést árið 2006 áður en dómur féll.

Stjórnarskrá Síle hefur nokkrum sinnum verið breytt en fulltrúar mið- og vinstri flokka í landinu segja hana standa í vegi fyrir þeim miklu umbótum sem gera þurfi í landinu.

Samþykki kjósendur að gera breytingar á stjórnarskránni þurfa þeir einnig að svara þeirri spurningu hvernig staðið verði að verki. Valið stendur milli þessa hvort efna skuli til blandaðs stjórnlagaþings borgara og þingmanna eða þings sem yrði eingöngu samansett af fólki sem hefði engin tengsl við stjórnmálin í landinu.

Verði niðurstaðan sú skal tryggt að jafnmargar konur og karlar sitji á stjórnlagaþinginu.