Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Katrín Tanja þriðja eftir fyrsta dag heimsleikanna

Mynd með færslu
 Mynd: Instagram/katrintanja - Instagram

Katrín Tanja þriðja eftir fyrsta dag heimsleikanna

24.10.2020 - 00:44
Katrín Tanja Davíðsdóttir er nú í þriðja sæti í kvennaflokki í Ofurúrslitum heimsleikanna í CrossFit sem hófust í Bandaríkjunum á föstudag.

Aðeins fimm keppendur í karla- og kvennaflokki taka þátt í ár vegna COVID-19 og er Katrín Tanja á meðal þeirra fimm sem keppa í kvennaflokki.

Keppni á fyrsta degi lauk skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma með öruggum sigri Katrínar Tönju í erfiðu víðavangshlaupi í krefjandi landslagi þar sem hún kom í mark á rétt rúmri einni klukkustund.

Hún var tæpum tveimur mínútum fljótari en hin bandaríska Haley Adams. Tia-Clair Toomey frá Ástralíu leiðir í kvennaflokki með 370 stig eftir fyrsta daginn en Katrín Tanja er með 260 stig.

Hér er hægt að fylgjast með stöðunni á leikunum.

Gefið var út að hlaupið yrði aðeins 5 km langt en þegar keppendur héldu að þeir væru að ljúka hlaupinu var þeim tilkynnt að þeir þyrftu að hlaupa aðra fimm kílómetra. Katrín Tanja sagði í viðtali eftir greinina að það hafi gefið sér aukinn kraft og hún kom langfyrst í mark á rétt rúmri einni klukkustund.

Fylgstu með í beinni!

Annar keppnisdagur hefst klukkan 17 í dag að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með Heimsleikunum á YouTube síðu Heimsleikanna.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Katrín fjórða eftir fyrstu þrjár greinar heimsleikanna

Íþróttir

Keppni hefst hjá Katrínu á Heimsleikunum í dag