Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Helgi Björns ber sig vel þrátt fyrir aflýsingu í kvöld

Mynd: Alda / Alda

Helgi Björns ber sig vel þrátt fyrir aflýsingu í kvöld

24.10.2020 - 14:19

Höfundar

Helgi Björnsson og hljómsveit hans, Reiðmenn vindanna, geta ekki komið fram í þættinum Heima með Helga eins og venjan er þar sem gestur sem koma átti fram í þætti kvöldsins er útsettur fyrir smiti. Þátturinn í kvöld verður með öðru sniði, þar sem rifjuð verða upp valin augnablik úr fyrri þáttum.

Einn aðalgesta kvöldsins æfði með hljómsveitinni í gær. Hann er útsettur fyrir smiti og því var ákveðið að tefla ekki á tvær hættur heldur breyta þættinum. Engin bein útsending verður því í kvöld úr hlöðunni hjá Helga heldur verða rifjuð upp brot úr fyrri þáttum.

Viðtal við Helga má heyra hér að ofan. 

„Aðdragandinn er þannig að einn af gestum þáttarins sem átti að vera í kvöld, hann er útsettur fyrir smiti eins og það heitir. Hann var í samvistum við einstakling sem var greindur á föstudaginn og fékk niðurstöðu í morgun. Þannig að í framhaldi af því var ákveðið að taka enga áhættu með það og aflýsa þar af leiðandi þættinum í kvöld.“

Hann segist ekki vera sjálfur í sóttkví, umfram þá sjálfskipuðu sóttkví sem hann hefur verið í um langa hríð. Stefnt sé að því að hafa þáttinn í beinni útsendingu um næstu helgi.

„Já já, við verðum væntanlega næsta laugardag, sérstaklega af því að við tókum þessa afstöðu. Ef einhver af okkur hefur smitast þá ætti það að vera komið í ljós á þriðjudag, miðvikudag í næstu viku. Nú bara sitjum við rólegir og tökum þessu bara af æðruleysi og hlýðum Víði. Við ætlum hins vegar að klippa saman brot af því besta úr þáttunum svo það verður eitthvað í gangi,“ segir Helgi.

Hann sé sjálfur við hestaheilsu.

„Ég er bara hress, er að fara að ganga úti með hundinn og anda að mér fersku lofti. Það er ekkert að mér, þetta eru aðallega aðgerðir til að koma í veg fyrir að eitthvað annað gæti gerst óheppilegt,“ segir Helgi.

Í fréttatilkynningu frá Símanum segir að þessi staða geti alltaf komið upp.

„Við vorum búin að búa okkur undir að þessi staða gæti komið upp og við erum með viðbragðsáætlun sem var virkjuð núna um 11:30 í morgun, nokkrum mínútum eftir að við fengum þessar fréttir,” segir Pálmi Guðmundsson dagskrárstjóri Sjónvarps Símans.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Erfiðast að takast á við hlutverk Helga fokking Björns

Menningarefni

Nýi borgarlistamaðurinn: „Við erum öll sexí“

Popptónlist

Helgi stoppar heiminn

Tónlist

Söng með opna buxnaklauf á jólatónleikum Bó