Gunnar læsti sig inni í herbergi á fyrsta stefnumótinu

Mynd: RÚV / RÚV

Gunnar læsti sig inni í herbergi á fyrsta stefnumótinu

24.10.2020 - 10:11

Höfundar

„Þetta var versta fyrsta deit allra tíma,“ segir Gunnar Helgason um það þegar hann bauð eiginkonunni fyrst í mat heim til sín. Hann hafði verið hrifinn af henni í eitt og hálft ár en tók því svo illa þegar hún sigraði hann í tafli að hann henti taflborðinu á gólfið og lokaði sig inni. Hjónin hafa verið saman í þrjátíu ár og eru bæði að gefa út bók fyrir jólin.

Björk Jakobsdóttir og Gunnar Helgason eru hjón sem taka bæði þátt í jólabókaflóði ársins en þau gefa út sína barnabókina hvor. Bók Bjarkar nefnist Hetjan og Gunnar er að gefa út framhald af Draumaþjófinum en nýja bókin nefnist Barnaræninginn. Þau kíktu við í Mannlega þáttinn og sögðu frá bókunum sínum, vináttu þeirra og Stefáns Karls heitins og sambandi sínu sem hófst þegar þau störfuðu bæði fyrir Gulu síðurnar í símaskránni. Þau reka saman Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði ásamt Ágústu Skúladóttur og Lárusi Vilhjálmssyni.

Bölvaði yfir því hvað bók eiginkonunnar væri góð

Hetjan er fyrsta bók Bjarkar en Gunnar hefur gefið út fimmtán bækur. „Nú setur maður bara í gírinn,“ segir Björk spennt fyrir að fá sjálf að taka þátt í flóðinu og hasarnum sem því fylgir. „Það er reyndar pínu erfitt að vera með fyrstu bók að keppa við metsöluhöfund.“ Og keppnisskapið er nefnilega strax farið að láta á sér kræla hjá þeim báðum og viðbrögð Gunnars þegar hann las bók Bjarkar í fyrsta skipti báru þess merki. „Mér fannst fallegt þegar hann var að lesa bókina og ég beið stressuð frammi. Svo heyrði ég hann segja: Andskotinn,“ rifjar Björk upp sem strax óttaðist að eiginmaðurinn væri að bölva yfir hvað bókin væri léleg. „Ég var bara: Guð minn almáttugur, hvað er að? Er hún ömurleg?“ En svo var sannarlega ekki. „Nei, hún er bara svo góð!“ svaraði Gunnar þá.“

Ekki allir geta verið jafn truntuhressir og komist upp með það

Gunnar er þekktur fyrir mikið keppnisskap en Björk bendir á að keppni í hans tilfelli sé oftast gleðikeppni. „Ég vil taka það fram að þó hann geri oft mikið úr keppnisgírnum þá er það alltaf í mikilli gleði og gerir allt skemmtilegra,“ segir Björk en leiðréttir sig svo. „Nema þegar hann lendir í fjölskylduboðum með mjög tapsáru fólki. Þá er þetta þunn lína þessi hresstruntuleiki.“ Gunnar bendir á að mótherjarnir geti sjálfum sér um kennt. Fólk ætti að vita hvað það er að fara út í þegar spilin eru tekin upp í hans návist. „Ég er svo indæll og almennilegur í svona keppnum,“ segir hann og Björk tekur undir að hluta. „Það geta fáir verið jafn truntuhressir og Gunni og komist upp með það.“

„Nei, þá myndum við bara skilja“

Þó þetta sé fyrsta Bjarkar er hún vön því að munda pennann. Hún hefur skrifað barnaleikrit og leikgerðir, nú síðast leikgerð upp úr Mömmu klikk eftir eiginmanninn sem þau settu upp í Gaflaraleikhúsinu. „Þá reyndi á okkar samstarf,“ segir Björk. „Okkur langar að gera fjölskyldusöngleik upp úr Draumaþjófinum. Við vinnum alveg vel saman í handritagerð og höfum gert það.“ Aðspurður telur Gunni þó ólíklegt að þau skrifi barnabók saman. „Ég sé það ekki fyrir mér. Það gæti gerst en er ekki á dagskrá,“ segir hann en Björk sópar möguleikanum strax út af borðinu. „Nei, ég held að þá myndum við bara skilja,“ segir hún og hlær.

Féll fyrir söludrottningunni í diskógallanum

Hjónin eru búsett í Hafnarfirði þar sem Björk er alin upp og hefur búið nánast alla tíð. „Ég reyndar skrapp til Reykjavíkur og náði mér í fola til undaneldis en svo fór ég bara aftur í Hafnarfjörð og hef búið þar síðan í Suðurbænum,“ segir hún. Gunnar er hins vegar alinn upp í Vogahverfinu, nánar tiltekið í Glaðheimum. Þau kynntust sumarið 1989 í Gulu bókinni sem var fyrirtækjasímaskrá þar sem þau störfuðu við að hringja í fyrirtæki og bjóða þeim að vera í Gulu bókinni gegn gjaldi. Björk var eins og goðsögn á vinnustaðnum því hún var alltaf söludrottningin. Og Gunni man vel eftir því þegar hann féll fyrir Björk. „Þetta var sumarið áður en hún var í inntökuprófum í Leiklistarskólanum og gat ekki byrjað jafn snemma og við. Svo kemur hún þarna eða ég mæti einn morguninn og allir bara: Drottningin er komin!“ Rifjar hann upp. Björk var í sérstakri drottningaskrifstofu á meðan aðrir voru bara með bása. Gunnar ákvað að gerast svo djarfur að heilsa upp á hana. „Ég spyr hvernig gekk í inntökuprófunum og þarna liggur hún þá í fjólubláum diskósamfestingi,“ segir hann. „Ég segi: Halló, hvað segir þú? Þá stynur hún: Ég nenni ekki að vera hérna.“ Gunnar vissi strax og hún játaði nennuleysið í diskógallanum að þetta væri konan sem hann vildi en það tók smá tíma að sannfæra hana. „Ég féll alveg fyrir henni en það tók eitt og hálft ár að láta hana falla fyrir mér.“

Þeytti taflborðinu á gólfið og rauk inn í herbergi

Fyrsta stefnumótið er minnisstætt þó Gunnar sé ekki eins hrifinn af því að rifja það upp og Björk. Það var Gunnar sem bauð Björk heim til sín. „Hann ákvað að vera með heimadeit, rosalega flott,“ segir hún. Gunnar hafði þá nýverið eignast flott taflborð sem Björk, sem er ágæt í tafli, dáðist að. Gunnar spyr þá hvort hún sé til í að tefla, ekki meðvitaður um hæfileika hennar á því sviði. „Svo koma Ási tvíburabróðir hans og Grjóni besti vinur hans heim og það gekk ekkert rosalega vel hjá Gunna. Þeir halda rosalega mikið með mér og ég heimaskítsmáta hann.“ Það fór ekki vel í hinn tapsára Gunnar. „Gunnar slær undir taflborðið þannig að taflmönnunum rigndi yfir mig og honum fannst það svo vandræðalegt,“ segir Björk. Hún var því ein frammi með bróður og vini Gunnars og hún spjallaði við þá um stund en ákvað svo að banka á herbergishurðinu og spyrja: „Gunni, á ég að fara heim núna?“ En þarna tók Björk óvænta ákvörðun. „Ég hugsaði: Maður sem er svona tapsár, hann á eftir að ná langt í lífinu.“ Gunnar viðurkennir að viðbrögð hennar við uppátækinu komu á óvart. „Það er furðulegt að hún skyldi ekki bara fara. Ég held hún hafi fengið taflborðið í fangið,“ segir hann. „Og hún sleppti því að segja að ég læsti herberginu.“ Björk segir að í raun hafi þau fallið fyrir innsta kjarnanum í hvort öðru. „Hann fyrir mér þegar ég sagði: Ég nenni ekki að vera hérna og ég fyrir honum þegar hann sagði: Ég þoli ekki að tapa.“ Gunnar tekur undir. „En þetta var versta fyrsta deit allra tíma.“

„Hefði ekki getað kosið mér betri eiginmann“

Þau fluttu inn saman árið 1992 og giftu sig þremur árum síðar og hafa alltaf stutt vel við bakið á hvort öðru. „Við erum vinir og hann er ástæðan fyrir því að ég skrifaði bók. Hann segir alltaf: Björk, þú getur allt,“ segir Björk um hjónabandið. En sumir dagar eru erfiðari en aðrir. „Stundum er ég óttaleg trunta og það er hann líka en ég held ég hefði ekki getað kosið mér betri eiginmann til að byggja mig upp.“ Og þau eru misrómantísk, Gunnar er heldur rómantískari en Björk að hennar sögn, sem grínaðist með það í uppistandi. „Þar talaði ég um að rómantísk kvöldstund á mínu heimili gengur út á að leggja karlinn í kjöltuna, finna gott lesljós, ná í plokkara og plokka ofvaxin eyrna- og nefhár,“ segir hún. „Það er alltaf kósý,“ segir Gunnar. „Það er pínu sadómasó í því, þetta er ógeðslega vont en henni finnst það geggjað.“ Þau verja líka miklum tíma saman í sumarbústaðnum þar sem þau eru dugleg að fara saman og taka til hendinni.

Stefán Karl kom í heimsókn þrisvar í viku

Það hefur verið líf og fjör á heimili hjónanna í gegnum tíðina og afar gestkvæmt. Stefán Karl Stefánsson var til dæmist sem húsköttur á heimili hjónanna sem unglingur og minnast hjónin þess með mikilli hlýju að hafa hann í heimsókn. „Ég kynntist honum þegar ég fór að skemmta með Magnúsi Ólafssyni frænda hans og þarna kemur þessi fimmtán ára strákur,“ rifjar Gunnar upp. „Við vorum að skemmta í Ólafsvík og hann var langfyndnastur. Ég sagði við hann að hann mætti koma í kaffi og hann kom daginn eftir.“ Eftir þetta kom Stefán í heimsókn þrisvar í viku um árabil og sat alltaf í sama stólnum og sagði sögur. „Hann þurfti áhorfendur. Hann hafði náttúrulega lent í einelti og svona en okkur fannst hann svo fyndinn. Hann sat bara og talaði og talaði og við hlógum,“ segir Gunnar. „Hann spurði aðeins út í bransann og svo talaði hann meira. Svo þegar hann hafði sjálfstraust til að fara í prófið þá rúllaði hann því upp.“ Stefán var líka veislustjóri í brúðkaupi hjónanna og þá vissi enginn hver hann var en allir voru sammála að hann væri alveg frábær. „Við vissum strax að þetta væri fyndnasti maður landsins,“ segir Björk.

Rafrænt útgáfuteiti með rottum og grímum

Það var ekki ætlunin hjá Björk þegar hún byrjaði að skrifa Hetjuna að skrifa barnabók en söguhetjan er fimmtán ára stúlka og hesturinn hennar svo úr varð barna- og unglingabók. Og Gunnar var sannarlega hrifinn af bókinni eins og fram hefur komið. „Við Ási bróðir vorum svona þeir fyrstu sem lásum hana og við lentum í því báðir að geta ekki klárað því við grétum svo mikið að við sáum ekki textann,“ segir hann. Barnaræninginn er hins vegar framhald af Draumaþjófinum sem fjallar um valdabaráttu í samfélagi rotta. Og hjónin ætla sér að halda útgáfupartý, í dag laugardag, en það verður stafrænt. „Þessu verður streymt á visir.is og til að passa að hún tali ekki allan tímann verður tímavörður,“ segir Gunnar sposkur. „Það verður happdrætti, rottur, grímur og leynigestur.“

Gunnar Hansson og Guðrún Gunnarsdóttir ræddu við Gunnar Helgason og Björk Jakobsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Þig grunar ekki hver, en þetta er maðurinn þinn“

Leiklist

„Ég vissi strax að þetta væri minn maður“

Bókmenntir

Skiptast á að vera Auður Laxness