Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Forseti Póllands með COVID og staðan erfið í landinu

24.10.2020 - 08:26
epa08769495 (FILE) - A file picture dated 01 September 2020 shows Polish President Andrzej Duda in Gdansk, Poland (issued 24 October 2020). Polish President Andrzej Duda has tested positive for coronavirus, Duda's spokesperson Spychalski said on 24 October 2020 morning, adding that the president is feeling well.  EPA-EFE/Adam Warzawa POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur greinst með kórónuveiruna. Þetta var tilkynnt í morgun, en fjöldi tilfella í landinu hefur aukist mjög undanfarnar vikur og aðgerðir verið hertar.

Í tilkynningu frá stjórnvöldum segir að Duda sé við góða heilsu. Smitið er talið mega rekja til viðburðar sem hann sótti í Tallinn í Eistlandi á mánudag, en AFP fréttastofan greinir frá því að hann hitti þar meðal annars Rumen Radev, forseta Búlgaríu, sem greindist með COVID í kjölfarið.

Hertar takmarkanir tóku gildi í Póllandi í dag, þar sem skólum og veitingastöðum var meðal annars lokað á sumum stöðum. Tæplega 14 þúsund ný smit greindust í gær og höfðu þá aldrei verið fleiri í Póllandi.

Pólverjar eru beðnir um að vinna sem mest heiman frá sér og allir þeir sem eru komnir yfir sjötugt er gert að halda sig heima. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar eru lokaðar og samkomutakmarkanir miðaðar við fimm einstaklinga. 

Nú er verið að setja upp bráðabirgða sjúkrastöð á þjóðarleikvangi Póllands í Varsjá, og víðar um land er verið að koma upp sjúkrarýmum þar sem heilbrigðiskerfið nálgast þolmörk.