Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Farsóttarhús opnað á Akureyri á ný og álag á lögreglu

24.10.2020 - 08:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Farsóttarhús var opnað á ný á Akureyri í gær, tæpum mánuði eftir að því var lokað vegna lítillar nýtingar. Yfirvöld hafa þurft að hafa afskipti af fólki sem átti að vera í sóttkví eða einangrun á svæðinu.

Farsóttarhús eru hugsuð fyrir fólk sem er í sóttkví eða einangrun vegna kórónuveirunnar og geta að einhverjum ástæðum ekki verið heima hjá sér. Slíkt úrræði var lengst af í boði á Akureyri, en undir lok síðasta mánaðar var því lokað. 

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsanna hjá Rauða krossinum, sagði þá að hægt yrði að opna aftur ef til þess þyrfti, og nú hefur það verið gert. 

38 eru í einangrun með COVID-19 á Norðurlandi eystra og um hundrað í sóttkví. Lögreglan tilkynnti í gær að hún hafi þurft að hafa afskipti af smituðum einstaklingum og fólki sem átti að vera í sóttkví. 

Þá segir lörgegla að enn sé óvíst hvort tekist hafi að ná utan um þá hópa sem tengjast þeim sem hafa smitast og hefta þannig útbreiðslu. Stök smit eru að greinast úti í samfélaginu þar sem óljóst er með tengingar við önnur smit.