Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert lát á átökum um yfirráð yfir Nagorno-Karabakh

24.10.2020 - 19:25
Armenskir hermenn í Nagorno-Karabakh. - Mynd: EPA-EFE / PAN PHOTO
Formaður vináttufélags Asera á Íslandi, Zakir Jón Gasanov, segir stöðuna í deilu Azera og Armena um yfirráð yfir héraðinu Nagorno-Karabakh mjög slæma, fólk týni lífi hvern einasta dag. Þúsundir íbúa héraðsins hafa síðustu vikur neyðst til að flýja heimili sín vegna stríðsátakanna. 

Ekkert lát er á stríðsátökum um yfirráð yfir héraðinu Nagorno-Karabakh. Tvö vopnahlé sem boðuð voru í þessum mánuði hafa ekki breytt neinu þar um. Héraðið er innan landamæra Aserbaísjan en meirihluti íbúa þar er frá nágrannaríkinu Armeníu. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, lýsti því yfir í vikunni að nær fimm þúsund manns hefðu fallið síðan átök brutust út 27. september. Samkvæmt opinberum tölum Armeníu og Aserbaísjan er fjöldinn um þúsund manns. Þúsundir hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.

Zakir Jón Gasanov er formaður vináttufélags Asera á Íslandi. Hann segir að á sínum tíma hafi nær allir Aserar flúið svæðið og að ríkið vilji ná yfirráðunum aftur. „Þá getur fólk snúið heim til sín og búið þar og eftir það við getum setið saman og rætt um Nagorno-Karabakh-málið,“ segir hann. 

Ertu bjartsýnn á að það verði hægt að leysa þetta? „Já, ég vona það. Þetta er ekki gott, að á hverjum degi fólk er að deyja, ungt fólk, krakkar og konur og allir bara deyja á hverjum einasta degi,“ segir hann.

epa08724886 A woman walks in her house allegedly damaged by an alleged recent shelling in the downtown of Ganja in Agdam region in Nagorno Karabakh, 06 October 2020. Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh).  EPA-EFE/AZIZ KARIMOV
Margir hafa misst heimili sín í bardögum Armena og Asera undanfarna daga. Mynd: EPA-EFE - EPA

 

13 ára gamall aserskur drengur var jarðsettur í dag. Hann fórst er heimili hans i bænum Ganja var sprengt. Ráðamenn í Azerbaijan sögðu í dag að armenski herinn hafi einnig varpað sprengjum á bæinn Terter í dag. AP fréttaveitan greinir frá því að flugskeytum hafi einnig verið varpað á Nagorno-Karabakh í dag. Eins og oft áður, neyddist fjöldi íbúa stærstu borgar héraðsins, Stapanakert, til að leita skjóls í neyðarskýlum. 

Utanríkisráðherrar Armeníu og Aserbaísjan funduðu með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær, hvor í sínu lagi. Átökin hafa haldið áfram eftir þá fundi.