Ekkert lát er á stríðsátökum um yfirráð yfir héraðinu Nagorno-Karabakh. Tvö vopnahlé sem boðuð voru í þessum mánuði hafa ekki breytt neinu þar um. Héraðið er innan landamæra Aserbaísjan en meirihluti íbúa þar er frá nágrannaríkinu Armeníu. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, lýsti því yfir í vikunni að nær fimm þúsund manns hefðu fallið síðan átök brutust út 27. september. Samkvæmt opinberum tölum Armeníu og Aserbaísjan er fjöldinn um þúsund manns. Þúsundir hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.
Zakir Jón Gasanov er formaður vináttufélags Asera á Íslandi. Hann segir að á sínum tíma hafi nær allir Aserar flúið svæðið og að ríkið vilji ná yfirráðunum aftur. „Þá getur fólk snúið heim til sín og búið þar og eftir það við getum setið saman og rætt um Nagorno-Karabakh-málið,“ segir hann.
Ertu bjartsýnn á að það verði hægt að leysa þetta? „Já, ég vona það. Þetta er ekki gott, að á hverjum degi fólk er að deyja, ungt fólk, krakkar og konur og allir bara deyja á hverjum einasta degi,“ segir hann.