Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert kvennafrí: Konur meirihluti framlínustarfsfólks

24.10.2020 - 19:26
Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki alstaðar í heiminum í farsóttinni og ekki að sjá að álagið minnki til muna í bráð - Mynd: Ásvaldur Kristjánsson / Landspítalinn
Það dugir ekki að þakka konum fyrir að sinna mikilvægum framlínustörfum í faraldrinum, heldur þarf að meta framlag þeirra í kaupi og kjörum. Þetta segir formaður Kvenréttindafélags Íslands. Ekki var hægt að halda kvennafrídaginn í dag vegna samkomubannsins.

Baráttudagur kvenna í dag

Í dag eru 45 ár frá fyrsta kvennafrídeginum á Íslandi. Um 90% kvenna lögðu niður störf til að sýna mikilvægi þeirra vinnuframlags, og fylktu liði á Lækjartorg. Atvinnulífið á Íslandi lamaðist. 

Mynd: RÚV / RÚV
Myndir frá kvennafrídeginum 1975

Síðan hefur leikurinn verið endurtekinn fimm sinnum; 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. Síðast fylltu konur Arnarhól, en slíkt er að sjálfsögðu ekki inni í myndinni í dag vegna kórónuveirufaraldursins.

En faraldurinn hefur ekki hvað síst áhrif á líf kvenna. Mikill meirihluti þeirra sem sinna nauðsynlegri grunnþjónustu í faraldrinum, eru í framlínustörfum, eru konur. Þær eru 75% af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 73% kennara og 57% starfsfólks við verslun og þjónustu.  

„Það er þeim að þakka að samfélagið sé þó gangandi og við getum ekki þakkað þeim nógu mikið,“ segir Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands. „En að sama skapi er ekki nóg bara að þakka, konur lifa ekki á þakklætinu einu saman, heldur þarf þessi viðurkenning á þeirra störfum og framlagi til samfélagsins að endurspeglast í kjörum þeirra,“ segir hún. Fólk í framlínustörfum sé í mestri smithættu, auk þess að vinna oft undir miklu álagi.

Konur af erlendum uppruna í erfiðri stöðu

Annar fylgifiskur faraldursins er hrun ferðaþjónustunnar, sem hefur gert það að verkum að margar konur af erlendum uppruna, sem sinntu meðal annars þrifum og þjónustu, hafa misst vinnuna. „Þeirra staða er bara mjög erfið,“ segir Tatjana. Margar þeirra hafi farið í umönnunarstörf á hjúkrunarheimilum, og sinna þá framlínustörfum.

Heimilisofbeldi hefur aukist í faraldrinum, en í samkomubanninu í vor voru 11% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en undanfarin ár. „Og það er eitthvað sem held ég samfélagið allt þarf að hafa virkilegar áhyggjur af,“ segir Tatjana. Það sé sorgleg staðreynd að ofbeldi aukist með álaginu sem fylgi samkomubanni og heimsfaraldri. 

Mynd: RÚV / RÚV
Myndir frá kvennafrídeginum 1985