Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Drífa vill að yfirvöld rannsaki hópsmitið á Júlíusi

24.10.2020 - 15:35
Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ Mynd: ASÍ
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir í pistli sínum að krafan um öryggi á vinnustöðum sé eitt af stærstu málum verkalýðshreyfingarinnar fyrr og síðar. Það sé ömurlegt að þurfa að heyja baráttu fyrir lágmarkssóttvörnum um borð í skipum, og vísar þar til hópsmits um borð í Júlíusi Geirmundssyni.

Í vikulegum pistli sínum þakkar Drífa það traust sem henni var sýnt á rafrænu þingi ASÍ þar sem hún var endurkjörin forseti sambandsins til næstu tveggja ára. 

„Að innanbúðarmálum slepptum þá urðum við fyrir sorglegri áminningu í vikunni um mikilvægi vinnuverndar. Það var eitt af stærstu málum verkalýðshreyfingarinnar fyrr á tímum og er enn um víða veröld: Krafan um að vera örugg í vinnunni og koma örugg heim! Við þurfum greinilega að gefa í og til dæmis gera ákveðnum útgerðum grein fyrir því að heilsa og velferð starfsfólks á að vera í fyrirrúmi,“ segir Drífa.

Í því samhengi vísaði hún til aðstæðna sjómanna um borð í Júlíusi Geirmundssyni, sem Verkalýðsfélag Vestfirðinga segir að hafi verið haldið nauðugum og veikum við vinnu á sjó á meðan sýking herjaði á áhöfnina. Þar hafi verið lyfjaskortur og forgangsraðað hverjir fengju verkjalyf. Lögreglan á Vestfjörðum skoðar nú hvort að hefja eigi sakamálarannsókn.  

„Árangur sjómanna síðustu áratugi í slysavörnum er þeim til mikils sóma og það er ömurlegt að þurfa að heyja nú baráttu fyrir lágmarks sóttvörnum um borð í skipum. Krafan er augljóslega að þar til bær yfirvöld rannsaki hópsmitið um borð í Júlíusi Geirmundssyni og eftir atvikum dragi útgerðina til ábyrgðar fyrir að stofna heilsu sjómanna í hættu,“ segir Drífa