„Ég er kominn með pælingar varðandi vídeó og sviðsetningu, svo kemur lagið síðast, en það er að fara af stað núna.“ En verður annar dans? „Það verður alltaf einhvers konar dans, við erum náttúrulega að keppa í Eurovision. Við eigum nokkrar Euro-klisjur eftir sem þarf að taka fyrir. Ég ætla að reyna að koma fyrir tveimur upphækkunum, þó ég viti ekki alveg hvernig það fer.“ Daði segir að lagið Think about Things, sem átti að vera framlag Íslands í Eurovision í ár, hafi nú þegar umbreytt lífi hans. „Ég er með allt annan leik sem ég get verið að spila núna. Það er vissulega ákveðin pressa að fara aftur í þetta. En ég er spenntur að sökkva mér djúpt í næsta verkefni. Think About Things hefur tekið ótrúlega mikinn tíma þó það hafi ekki farið í Eurovision.“
Think About Things hefur notið gífurlegra vinsælda og er orðið eitt vinsælasta Eurovision-lagið, þó það hafi ekki einu sinni farið í keppnina. Hefur Daði undan að fylgjast með vinsældum þess? „Ég er hættur að gúgla sjálfan mig, þetta er komið á það stig. Ef það eru fréttir sé ég það hjá öðrum á Twitter.“
Daði segir að nýja lagið komi ekki fyrir augu og eyru almennings á þessu ári og líklega ekki í janúar en fljótlega upp úr því. Vegna vinsælda Think About Things hefur Daða meðal annars verið boðið að koma fram á Melodie festivalen, undankeppni Eurovision í Svíþjóð, og ýmsum upphitunarsamkomum fyrir Eurovision í vor. „En við verðum reyndar á túr á þessum tíma þannig að ég veit ekki hvort við komumst í mikið af því.“ Daði býst við að búa áfram í Berlín þar sem hann hefur dvalist undanfarin ár en er orðinn mjög spenntur fyrir að halda tónleika á Íslandi. „Um leið og það er hægt að halda alvörutónleika á Íslandi er ég mættur.“
Gísli Marteinn ræddi við Daða Frey með fjarfundabúnaði í Vikunni í gær.