
26 smit á Landakoti – metfjöldi á spítala í 3. bylgju
76 greindust innanlands í gær. Stór hluti þeirra smita er í tengslum við hópsýkingu á Landakoti, eða 26 manns. Þórólfur á von á því að það taki skamman tíma til að ná utan um hana. Það sé bakslag að upp sé komin hópsýking á Landakoti.
„Það sem er ánægjulegt þó í þessu bakslagi er að um 80 prósent var í sóttkví við greiningu. Þannig að ég á von á því að það takist tiltölulega fljótt að ná utan um þessa hópsýkingu en ég geri ráð fyrir að við eigum eftir að greina fleiri í kringum þessa hópsýkingu. Ég held að við getum alveg kallað þetta bakslag, en við erum búin að segja það að þetta er ekki bara bein lína upp eða niður. Þetta eru sveiflur á milli daga og við megum alveg búast við því að sjá svona hópsýkingar áfram,“ segir Þórólfur.
Grafalvarleg staða
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs LSH, segir að staðan á Landakoti sé mjög alvarleg. Frá því í gær hefur smitum fjölgað þar.
„Það eru 10 starfsmenn núna sem eru með COVID. Þeir eru á þremur einingum á Landakoti. Sem betur fer hafa ekki bæst við fleiri smitaðir sjúklingar. Það verða fleiri skimanir í dag, bæði á starfsfólki og sjúklingum. Við eigum eftir að fá þær niðurstöður síðar í dag. Þetta er mjög alvarleg staða,“ segir Guðlaug Rakel.
Hún býst við því að sýkingin nái út fyrir spítalann. Það hafi ekki enn þá greinst smit utan spítalans sem rakið er til Landakots, en rakning sé í gangi. Verið er að breyta skipulagi á Landakoti með því að færa til sjúklinga og breyta tvíbýlum í einbýli.
10 fluttir frá Landakoti í Fossvog
Á Landspítala eru nú um 30 sjúklingar með COVID-19, þar af þrír á gjörgæslu og einn í öndunarvél. Það er mesti fjöldi inniliggjandi sjúklinga í þriðju bylgju faraldursins hingað til.
„Það voru um tíu sjúklingar sem voru fluttir frá Landakoti yfir í Fossvoginn í gær. Þetta er viðkvæmur hópur sem er á Landakoti og viðbúið að þeir þoli þessa sýkingu verr heldur en aðrir og við eigum eftir að sjá það aðeins betur, en ég veit ekki hvernig því er háttað núna,“ segir Þórólfur.
Hann segir að viðbragðsteymi Landspítala haldi utan um viðbragð við hópsýkingunni.
„Þau eru vön þessu og kunna til verka og eru á fullu að rekja smitin og beita einangrun og sóttkví. Það eru mjög margir starfsmenn komnir í sóttkví, eftir því sem ég veit best, á Landakoti, hátt í hundrað manns. Svo þetta veldur verulegri röskun á starfsemi spítalans en spítalinn er á fullu sjálfur að ná utan um þetta,“ segir Þórólfur.