Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Um 3.000 fjár á 4 bæjum líklega skorið niður vegna riðu
23.10.2020 - 15:53
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu hefur riðusmit greinst á þremur sauðfjárbúum í Skagafirði til viðbótar við Stóru Akra 1 þar sem smit var staðfest fyrr í vikunni. Bæjirnir þrír, Syðri Hofdalir, Grænamýri og Hof í Hjaltadal eru allir í sama smitvarnarhólfi og Stóru Akrar.
Þetta staðfesti Jón Kolbeinn Jónsson héraðsdýralæknir Norðurlands vestra í samtali við fréttastofu rétt í þessu. Hann áréttar þó að þetta sé bráðabirgðaniðurstaða. Samtals eru hátt í tvö þúsund fjár á bæjunum þremur. Á Hofdölum eru um 750 fjár, um 1100 fjár á Grænumýri og nokkrir tugir á Hofi. Um 800 fjár eru á Stóru Ökrum. Gera má ráð fyrir að fé verði skorið niður á öllum bæjum þar sem smit greinist, verði það staðfest.
Gripir frá Stóru Ökrum höfðu gengið kaupum og sölum innan varnarhólfsins á milli bæja. Fram til þessa hafði ekki greinst riða í hólfinu í tuttugu ár að undanskildum Svarfaðardal.
Fréttin hefur verið uppfærð