Í dag keppa lið á EM undir nafni síns lands en árið 2010 keppti Gerpla fyrir hönd Íslands á EM sem Íslandsmeistari. Keppnin fór fram í Svíþjóð og var sænska liðið helsti keppinautur Íslands. Íslenska liðinu héldu þó engin bönd. Liðið átti hæstu einkunn í undankeppninni og bætti svo um betur í úrslitunum og varð verðskuldað Evrópumeistari, fyrst íslenskra liða í fullorðinsflokki. Sigurgleðin var mikil og mótttökurnar hér heima sömuleiðis.
„Þetta er búin að vera löng törn og við erum búnar að undirbúa okkur í mjög langan tíma,“ sagði Fríða Rún Einarsdóttir úr sigurliðinu í viðtali við RÚV á sínum tíma.
Íslenska liðið fylgdi þessum sigri eftir með því að endurtaka leikinn tveimur árum síðar. Síðan þá hefur titillinn ekki unnist og Ísland orðið að sætta sig við silfur síðustu tvö skipti en mótið frestaðist í ár vegna kórónaveirufaraldursins.
Myndskeið um Evrópumeistaratitil Gerplu má sjá í spilaranum hér að ofan.