Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Starfsfólki fækkar í öllum greinum iðnaðar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Starfsfólki hefur fækkað í öllum greinum iðnaðar frá upphafi kórónuveirufaraldursins. Sú fækkun starfa sem orðið hefur undanfarna mánuði er alfarið bundin við einkageirann og á sama tíma hefur opinberum störfum fjölgað. Brýnt er að skapa störf í einkageiranum til að komast út úr því ástandi á vinnumarkaði og þeirri niðursveiflu sem nú ríkir. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins.

Í greiningunni er fyrirtækjum í iðnaði skipt í þrjár greinar; framleiðsluiðnað, mannvirkjagerð og hugverkaiðnað. Störfum hefur fækkað innan allra greina, um 7% í framleiðsluiðnaði, um 8% í mannvirkjagerð og 4% í hugverkaðnaði.

„Stóri efnahagsvandi núverandi niðursveiflu snýst um töpuð störf í einkageiranum,“ segir í greiningu SI. „Nemur fækkunin ríflega 19 þúsund manns yfir tólf mánaða tímabil fram til ágúst í ár eða sem nemur 7,2%. Fækkunin er orðin álíka mikil og þegar mest var í síðustu niðursveiflu.“

Í greiningunni segir að þróunin hafi alfarið verið bundin við einkageirann en fjölgun hafi verið í starfandi hjá hinu opinbera á tímabilinu.  „Fækkun starfa í einkageiranum hefur birst í mikilli aukningu atvinnuleysis og minni atvinnuþátttöku undanfarið en atvinnuleysið mælist nú mjög hátt eða 9% og er reiknað með að það aukist enn á næstu mánuðum. “

Af einstökum greinum einkageirans hefur fækkun starfa verið mest í ferðaþjónustu, þar sem hefur fækkað um rúmlega 11.000 störf á síðustu 12 mánuðum eða 35%. Fyrirtæki í helstu greinum iðnaðarins hafa einnig þurft að fækka starfsfólki en í mun minna mæli en í ferðaþjónustu.  Tæplega 44 þúsund manns störfuðu í iðnaði á síðastliðnu ári eða einn af hverjum fimm á íslenskum vinnumarkaði.

„Starfandi í greininni hefur fækkað um 3.400 yfir síðustu 12 mánuði eða 7,0%. Samdrátturinn í greininni er aðeins undir þeim samdrætti sem hefur verið í einkageiranum. Af öðrum greinum einkamarkaðarins má nefna að í sjávarútvegi hefur störfum einnig fækkað en ekki nema um 3,9% á þessum tíma,“ segir í greiningu SI.

Þar segir að helsta verkefni hagstjórnar á næstu misserum sé að skapa störf í einkageiranum og til þess að það megi verða þurfi að auka verðmætasköpun í þeim hluta hagkerfisins. „Við þurfum þessi störf til að ráða bót á þeim bráðavanda sem það mikla atvinnuleysi er sem nú er hér á landi. Mikið atvinnuleysi er samfélagsleg meinsemd og mikilvægt að ná því niður sem fyrst. Forsenda þess er samkeppnishæfni atvinnulífsins. Viðspyrnan verður ekki án sterkrar stöðu á því sviði,“ segir í greiningunni.