Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mótmæli við sendiráð Póllands vegna laga um þungunarrof

23.10.2020 - 19:45
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Hópur fólks kom saman við pólska sendiráðið í Reykjavík síðdegis og mótmælti niðurstöðu stjórnarskrárdómstóls í Póllandi í gær um að ekki verði heimilt að rjúfa þungun ef fóstur þykir ekki lífvænlegt.

Það voru pólsku kvennréttindasamtökin Dziewuchy Islandia sem boðuðu til mótmælanna til að sýna samstöðu með aðgerðasinnum í Póllandi. Mótmælendur voru sérstaklega hvattir til að huga að smitvörnum, koma með grímur og halda fjarlægð sín á milli.  

Pólski stjórnarskrárdómstóllinn samþykkti i gær að aðeins verði heimilt að framkvæma þungunarrof ef líf móður er í hættu eða ef kona verður barnshafandi eftir nauðgun. Í fyrra voru framkvæmd 1.110 þungunarrof í landinu, af þeim voru 98 prósent vegna þess að fóstur þótti ekki lífvænlegt. Með nýju lögunum verður það ekki lengur heimilt. 

„Enginn á rétt til að neyða konur til hetjuskapar. Enginn á rétt til að dæma konur til kvala og pínu. Að sjá barn sitt deyja er lífsreynsla sem engin móðir, enginn faðir og enginn ættingi getur gleymt,“ segir Barbara Nowacka, þingmaður og formaður stjórnmálaflokksins Inicjatywa Polska.

Yfirdómari dómstólsins sagði að fyrri lög hafi ekki samrýmst ákvæðum stjórnarskrár landsins um rétt til lífs.

epa08768546 People take part in 'The Silent Women's March' to protest against the tightening of the abortion law in Poznan, Poland, 23 October 2020. Poland's Constitutional Tribunal on 22 October ruled that laws currently permitting abortion due to foetal defects are unconstitutional. Explaining its verdict, the court said that human life was of value in every development phase, and should therefore be protected by law.  EPA-EFE/JAKUB KACZMARCZYK POLAND OUT
 Mynd: EPA
Mótmæli í Pozan í dag.

Í höfuðborginni Varsjá var lögunum mótmælt í gær við byggingu stjórnarskrárdómstólsins, við höfuðstöðvar stjórnarflokksins Laga og réttlætis og við heimili Jarosławs Kaczyński, leiðtoga flokksins og varaforsætisráðherra. Mótmælin héldu áfram víða um landið í dag.

Fyrir voru lög um þungunarrof í landinu með þeim strangari í Evrópu og er talið að þúsundir kvenna leiti árlega læknisaðstoðar í öðrum löndum til að fara í þungunarrof.