Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leggja til að endurhanna Landeyjahöfn

Mynd með færslu
Frá Landeyjahöfn. Mynd: Vegagerðin
Líklega þyrfti að endurhanna Landeyjahöfn til þess að hún verði nógu djúp fyrir þær siglingar sem henni er ætlað að sinna. Þær endurbætur sem hingað til hafa verið gerðar hafa ekki dugað hingað til og ætla má að erfitt sjólag utan hafnar muni áfram takmarka siglingar nýrrar ferju. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var um fyrstu skref að óháðri úttekt á framkvæmd og nýtingu hafnarinnar.

Skýrslan var unnin í samræmi við þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi í desember 2019. Hún hefur verið send í umsögn og er miðað við að ákvarðanir um næstu skref verði teknar þegar yfirferð hennar er lokið. 

Í skýrslunni eru nokkrar aðgerðir lagðar til.  Til dæmis framkvæmdir sem myndu mynda skjól milli rifs og hafnarmynnis gagnvart háum öldum. Í skýrslunni segir að slíkar framkvæmdir myndu bæta siglingarhæfi ferjunnar milli rifs og hafnar og séu líklegar til að styðja við dýpkunaraðgerðir.

Þá segir einnig í skýrslunni að ólíklegt sé að unnt sé að gera endurbætur á höfninni eins og hún er í dag þannig að ekki verði lengur þörf fyrir að dýpka hana. „Til þess að slíkt markmið náist er líklegra að endurbætur þurfi að fela í sér róttækar lausnir sem krefjast endurhönnunar hafnarinnar. Slíka lausn þyrfti að skilgreina vel og meta til samanburðar við aðrar lausnir til endurbóta á höfninni. Dæmi um slíka útfærslu væri að byggja nýja höfn utan við rifið sem tengd væri eldri höfn með brú,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni er ekki lagt mat á kostnað við þessar framkvæmdir.