„Jafnvel fullorðið fólk stríddi mér“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

„Jafnvel fullorðið fólk stríddi mér“

23.10.2020 - 11:03

Höfundar

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri stamar. Sem barn var honum mikið strítt, bæði af jafnöldrum og fullorðnu fólki, og þegar hann tók við embætti seðlabankastjóra reyndu mótherjar jafnvel að nota stamið gegn honum. Hann kíkti í Síðdegisútvarpið í tilefni alþjóðlegrar vitundarvakningar um stam og hvatti ungt fólk til að láta stamið ekki stoppa sig.

Í gær, 22. október, var dagur stams. Dagurinn hefur tileinkaður vitundarvakningu um stam um heim allan frá árinu 1998 og er ætlað að skapa vettvang fyrir aukna fræðslu og umræðu um stam og áhrif þess á líf fólks. Þegar Ásgeir Jónsson var yngri átti hann erfitt með að koma orðum frá sér og það var ekki fyrr en hann var kominn í doktorsnám í Bandaríkjunum sem honum tókst að sigrast á staminu að mestu. Í skólanum var kennd og rannsökuð talmeinafræði og Ásgeir bauð sig fram sem tilraunadýr í stamþjálfun. „Þar var ég í fimm ár í stífri þjálfun og ég náði góðum árangri,“ segir Ásgeir. „Þar lærði ég ákveðin tækniatriði, hvernig maður getur átt við stamið.“

Hann segir að það sé ekki vitað hvers vegna fólk stamar og að ástæðan geti verið persónubundin. „Þú kennir fólki ekki að hætta þessu sisvona,“ segir Ásgeir sem enn á það til að byrja að stama. „Þetta gengur þokkalega en það kemur fyrir ef ég verð þreyttur, illa fyrir kallaður eða stressaður þá fer tæknin að brotna niður,“ segir hann. „Allir sem stama geta átt von á því að þeir stami.“ Og í huga þeirra er stam stundum það versta sem þeir geta hugsað sér. „Jafnvel þó annað fólk sé umburðarlynt og lítur ekki á þetta sem stórmál þá magnar fólk þetta oft í hugum sínum. Þetta er held ég oft þannig með fötlun sem fólk þarf að eiga við.“

Ásgeiri var mikið strítt á staminu sem barn. „Jafnvel fullorðið fólk stríddi mér á þessu,“ segir hann. Og það hefur jafnvel gerst í seinni tíð. „Ég hef lent í því, sérstaklega þegar ég var að byrja ferilinn að eldri mönnum fannst þetta fyndið. Auðvitað situr þetta í manni.“ Þegar hann var skipaður seðlabankastjóri reyndu andstæðingar Ásgeirs að nota stamið gegn honum. „Sumir voru að gefa í skyn að af því að ég stamaði gæti ég ekki gengt þessu embætti. Ég skildi það aldrei alveg, hvort það snerist um að ég gæti ekki tjáð mig almennilega eða hvort stamið væri hluti af því hversu mikill fáviti ég væri,“ segir Ásgeir.

Þrátt fyrir að honum hafi tekist að vinna bug á vandanum með þrotlausri vinnu segir hann stamið enn vera hluta af honum sem hann lifi með. „Ég tala oft hratt og óskýrt og þannig er það bara. Mér finnst það sjálfum ekki endilega hafa háð mér í starfi en þú þarft að fara frá því að vera strákur sem gat ekki talað almennilega og þorði varla að spyrja í tímum af ótta við að krakkarnir myndu hlæja að manni, yfir í að geta talað opinberlega. Það er ansi langur vegur.“ Ásgeiri er mikilvægt að börn sem stama átti sig á því í dag að það er viðráðanlegt. „Þú getur unnið á þessu og þú getur náð árangri í því sem þú vilt,“ segir hann. „Vonandi eru það þau skilaboð sem ég get sent.“

Rætt var við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menntamál

„Verð skarpari en missi húmorinn á lyfjum“

Mannlíf

„Mér leið oft ekki vel ef ég var of hvatvís“