Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hollendingar lofa því að keppnin verði haldin

Mynd: Baldur Kristjánsson / RÚV

Hollendingar lofa því að keppnin verði haldin

23.10.2020 - 17:32

Höfundar

„Daði er nú farinn af stað að semja næsta hittara,“ segir Rúnar Freyr Gíslason verkefnastjóri hjá RÚV en í dag var tilkynnt að Daði Freyr myndi taka þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd og engin forkeppni yrði haldin.

Að sögn Rúnars Freys sem var gestur Síðdegisútvarpsins verður lagið frumflutt í byrjun næsta árs. „Við munum reyna að gera eitthvað skemmtilegt í staðinn á þessum tíma þegar fólk er vant því að fá sína Söngvakeppni, verðum með tónlistar- og skemmtidagskrá. Ég býst við að Daði muni jafnvel koma eitthvað inn í það, við fáum að fylgjast með hvernig lagið varð til.“ Rúnar segist skilja vel að einhverjir séu svekktir sem voru kannski tilbúnir með lag til að senda inn í Söngvakeppnina. „En þá hvetjum við þá bara til að bíða með það, því ef lagið er gott verður það áfram gott á næsta ári. Hugmyndin er að eftir að þessu skrítna ástandi lýkur verði haldið áfram með Söngvakeppnina.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rúnar Freyr Gíslason, verkefnastjóri Söngvakeppninnar.

Hið mikla óvissuástand sem nú ríkir samfélaginu vegna COVID-19 hafði líka sitt að segja í ákvörðuninni. „Við vitum ekkert hvernig þetta verður í janúar eða febrúar, hvort það verði yfir höfuð hægt að halda Söngvakeppni nema með einhverjum skrítnum hætti, án áhorfenda til dæmis.“ Rúnar segir að í Hollandi þar sem halda á Eurovision í maí sé reiknað með því að hægt verði að halda keppnina á mismunandi vegu, eftir ástandinu á faraldrinum. „Hollendingarnir eru held ég með plan A, B, C og D.“ A sé þá eins og venjuleg keppni, B verði án áhorfenda en keppendur mæti á staðinn, C að sumir keppendur komist en aðrir ekki. „Svo er síðasti möguleikinn að enginn fái að ferðast og keppnirnar fari þá fram hvert í sínu landi og linkað frá Hollandi yfir í öll löndin. Þá verði reglur um hvernig svið og ljós eigi að vera í hverju landi. En það verður keppni, þeir lofa því!“

Að sögn Rúnars hefur Daði gefið upp að hann ætli sér að vera á svipuðum slóðum og Think About Things í nýja Eurovision-laginu. „Þetta verður stuðlag og skemmtun. Hann er kominn með hugmynd að konsepti, myndbandi og texta, og er nú að fara að semja lagið út frá því.“

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Engin söngvakeppni - Daði keppir fyrir hönd Íslands

Tónlist

Daði tekur Jaja Ding Dong: „Í fyrsta og síðasta skipti“

Popptónlist

Daði Freyr á topp 40 í Bretlandi

Menningarefni

Daði og Gagnamagnið fengu langflest stig frá Norðmönnum