Að sögn Rúnars Freys sem var gestur Síðdegisútvarpsins verður lagið frumflutt í byrjun næsta árs. „Við munum reyna að gera eitthvað skemmtilegt í staðinn á þessum tíma þegar fólk er vant því að fá sína Söngvakeppni, verðum með tónlistar- og skemmtidagskrá. Ég býst við að Daði muni jafnvel koma eitthvað inn í það, við fáum að fylgjast með hvernig lagið varð til.“ Rúnar segist skilja vel að einhverjir séu svekktir sem voru kannski tilbúnir með lag til að senda inn í Söngvakeppnina. „En þá hvetjum við þá bara til að bíða með það, því ef lagið er gott verður það áfram gott á næsta ári. Hugmyndin er að eftir að þessu skrítna ástandi lýkur verði haldið áfram með Söngvakeppnina.“