Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hjálmar slá tvær flugur í einu höggi

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar

Hjálmar slá tvær flugur í einu höggi

23.10.2020 - 15:38

Höfundar

Yfir hafið er ný plata með Hjálmum þar sem breitt er yfir plötu með sama nafni frá 2014. Platan er stórgóð og einnig tímabær áminning um gæði upprunalega verksins.

Þetta er alveg magnað konsept sem við erum með í höndunum hérna og ég man ekki eftir því að hafa rýnt í annað eins. Semsagt, platan Yfir hafið kom út 2014 og flytjandi var Uniimog, sveit skipuð þremur Hjálmum (Þorsteini Einarssyni, Guðm. Kristni Jónssyni og Sigurði Guðmundssyni) og Ásgeiri Trausta. Lögin urðu til á flakki þeirra um heiminn er Ásgeir var að gera sín fyrstu strandhögg. Guðm. Kristinn sagði í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma: „Steini á yfirleitt einhver lög í fórum sínum en hann hefur samið flest Hjálmalögin. Þetta eru lög sem henta ekki reggístílnum sem Hjálmar eru þekktastir fyrir en eru engu að síður góð lög.“ Skondin yfirlýsing, miðað við það sem við erum með í höndunum nú.

Platan kom semsagt út 2014 en datt hins vegar á milli þilja, menn voru uppteknir í Ásgeirsmálum og eftirfylgni engin. Það var því ákveðið að hljóðrita hana aftur en í þetta sinnið undir merkjum Hjálma og með þeim brag sem sú sveit er þekkt fyrir. Hrein ábreiða í raun yfir Uniimog plötuna eins og undirstrikað er með glæstum hætti á vel heppnuðu umslagi. Talið var í er Hjálmar fóru tónleikahring í kringum landið á dögunum og áttu tvo frídaga fyrir austan. Stúdíó Síló á Stöðvarfirði var vettvangur atsins en eftirvinnsla fór fram í Hljóðrita og á Flateyri.

Ég var einn af þeim fjölmörgu sem missti af vagninum í fyrsta skipti. Rétt skimaði plötuna ef ég man rétt. Og ég verð eiginlega að byrja á því að lýsa upprunalega verkinu lítið eitt, svona til skilningsauka (þó báðar plötur standi fullkomlega einar). Uniimog platan er með hrímuðu poppsniði, nútímaleg, melódísk raftónlist ekki langt frá því sem Ásgeir átti eftir að reyna sig með á Afterglow (2017). Sjá t.d. „Adam átti 7“. „Segðu já“ valhoppar nánast, skálka- og skemmtilegt á meðan „Nú er sólin hnigin“ er ballöðukenndara en í miklum hljóðgervla- og tölvuham. Umslag þessarar plötu, litirnir þar, lýsa innihaldinu ágætlega. Þessi Hjálmaútgáfa er síðan dandalafín en Hjálmar er eðalsveit og fyrirmunað að skila inn löku verki.

Ljúf og sérstæð rödd Steina tónar yfir þekkilegu reggíi, þ.e. reggíútgáfum af þeim lögum sem Uniimog plötuna prýða. Það er pínu undarlegt að hlusta á þetta og ég raðaði meira að segja mismunandi útgáfum af hverju og einu lagi upp með „add to queue“ möguleikanum í Spotify. Og sjá, þetta eru sömu lögin, ein útgáfan svöl og rafbundin, hin heit og reggíbundin. Ólíkar útgáfur já, en samt pínu ekki, af því að þetta er næstum því sami mannskapurinn. Já, ég veit, fríkað!

Hér eru tvær flugur slegnar í einu höggi. Áður var til ein plata sem fáir vissu af. Núna erum við komin með a) nýja, stórgóða plötu með Hjálmum og b) áminningu um að verkið sem sú plata byggir á er vel stöndugt og á upprifjun skilda. Tvær plötur í stað hálfrar. Geri aðrir betur!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Bríet, Hjálmar og Tómas Welding með nýtt

Popptónlist

Hjálmar gefa út nýja plötu og myndband

Mynd með færslu
Tónlist

Hjálmar í beinni frá Hljómahöllinni

Tónlist

Hjálmar mættu Kölska í Bjarnarfirði