Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Heyrði son sinn óska þess að deyja í kjölfar eineltis

23.10.2020 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lýsingar móður á grófu einelti sem sonur hennar hefur orðið fyrir hefur vakið mikla athygli í dag. Stjórnendur grunnskólans sem drengurinn sækir, þar sem mikið af eineltinu hefur farið fram, harmar stöðuna sem upp er komin. 

Í færslu á Facebook lýsir móðirin því hvernig hún hefur fengið ótal símtöl frá syni sínum þar sem hann er grátandi inni á klósetti í skólanum vegna þess að strákar í skólanum hafi hótað honum, hreytt í hann særandi athugasemdum eða lamið hann.

Hún lýsir því þegar hún heyrði í syni sínum tala við vin sinn í símann þar sem hann talaði um að sér liði svo illa í skólanum að hann vildi helst deyja. Drengurinn var að lokum tekinn úr skólanum, en frétti síðar að bekkjarfélagar hefðu klappað þegar þeim var tilkynnt það. 

Ekki hægt að tjá sig um einstök mál

Móðirin hefur fengið gríðarleg viðbrögð við færslunni. Hún tjáði sig fyrst við Stundina og eftir að fleiri miðlar fjölluðu um málið í dag sendu stjórnendur skólans frá sér yfirlýsingu nú síðdegis. 

Þar kemur fram að einelti sé alltaf tekið alvarlega í umræddum skóla og rík áhersla sé lögð á að leysa slík mál, faglega og af festu.

Skólinn geti ekki tjáð sig um mál einstaka nemenda, en vill koma á framfæri að unnið hafi verið með nemendum skólans í félagsfærni og vináttuþjálfun. Kennarar hafi jafnframt sótt námskeið og þeirri vinnu verði áfram haldið. 

Í færslu sinni gagnrýnir móðirin það meðal annars að þolendur ofbeldis þurfi alltof oft að flýja skóla sína, á meðan gerendur halda þar áfram. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV