Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

16 sjúklingar og 6 starfsmenn smitaðir á Landakoti

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Hópsýking er komin upp á Landakoti, öldunarlækningadeild Landpspítalans. 16 sjúklingar og 6 starfsmenn deildarinnar hafa verið greindir með veiruna og eru 100 starfsmenn og sjúklingar í sóttkví vegna málsins. Þetta staðfestir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs. Smit er á fleiri en einni deild en ekki er vitað hvernig smitið barst þarna inn.

Guðlaug Rakel segir að þrír sjúklingar hafi verið fluttir inn í Fossvog og hún reiknar með því að fleiri verði fluttir í kvöld. Ekki hafi fengist niðurstaða úr öllum sýnum og því sé ekki vitað hversu útbreitt smitið er. 

Hún segir þetta hópsýkingu sem tekin sé mjög alvarlega.  Strax hafi verið farið í að skima og rekja smit og farsóttanefnd fundi nánast á klukkutímafresti.  Ekki er vitað hvernig sýkingin kom inn á Landakot og Guðlaug segir að þau hafi ekki verið of kærulaus heldur hafi verið farið eftir öllum sóttvarnareglum. „Smit getur komið víða að og það er engin leið að segja hvernig þetta gat gerst.“

Búið er að hafa samband við flest alla aðstandendur og segir Guðlaug að fólk sýni þessu skilning. „Landið er undirlagt af COVID og því miður þá gerðist þetta.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV