Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Útgöngubann í Aþenu og víðar í Grikklandi

22.10.2020 - 17:56
epa08758667 Medical personel wearing protective gear collect swab samples during massive Rapid Tests for COVID-19 in the metro station of central Syntagma square, in Athens, 20 October 2020. According to reports, COVID-19 cases are increasing in Greece, most of them in central Athens, with an increase in the number of deaths and of patients in intensive care units.  EPA-EFE/ORESTIS PANAGIOTOU
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Útgöngubanni hefur verið lýst yfir í Aþenu og víðar í Grikklandi vegna fjölgunar kórónuveirusmita að undanförnu. Fólk verður skyldað til að vera með hlífðargrímu á almannafæri, utan dyra sem innan.

Kyriakos Mitsotakis forsætisráðherra greindi frá þessu í dag í ávarpi til þjóðarinnar. Útgöngubannið verður í gildi frá hálf eitt að nóttu til fimm að morgni frá og með næsta laugardegi. Smitum hefur fjölgað hratt í Grikklandi að undanförnu. Þau voru 865 og 882 síðustu tvo sólarhringa. 

Útgöngubann framlengt í Frakklandi

Stjórnvöld í Frakklandi framlengdu í dag útgöngubann í níu borgum, þar á meðal höfuðborginni París. Það þýðir að 46 milljónir landsmanna verða að halda sig inni frá níu að kvöldi til sex að morgni. Jean Castex forsætisráðherra tilkynnti þetta. Hann sagði að næstu vikur ættu eftir að reyna á þolrifin í Frökkum og þá ekki síður heilbrigðiskerfinu.

Smitum heldur áfram að fjölga víðast hvar í Evrópu. Í Danmörku voru greind 760 smit síðastliðinn sólarhring. Þau hafa ekki verið fleiri síðan í vor. Danskir fjölmiðlar hafa eftir Mette Frederiksen forsætisráðherra að ljóst sé að herða þurfi sóttvarnaaðgerðir vegna þessa. 

Dönsk stjórnvöld réðu fólki frá þvíí dag að ferðast til allra Evrópulanda að Noregi og Grikklandi undanskildum, ásamt nokkrum héruðum í Svíþjóð. Þar er talið að ástandið vegna heimsfaraldursins sé enn viðunandi.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV