Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ungum konum í Danmörku er nóg boðið

Mynd: Pixabay / Pixabay
Síðsumars og í haust hefur Metoo-bylgja skollið á Danmörku, ekki síst velkist ríkisstjórnarflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn í brimróti hennar. Í byrjun vikunnar sagði Frank Jensen, varaformaður Jafnaðarmanna og borgarstjóri Kaupmannahafnar til tíu ára af sér embætti og stutt er síðan Morten Östergaard vék sem leiðtogi Radikale venstre eftir að hafa gengist við að hann hefði áreitt flokkssystur sína.

Þá hefur verið rifjað upp og kært til lögreglu að fyrir tólf árum hafi Jeppe Kofod núverandi utanríkisráðherra sem þá var 34 ára þingmaður á uppleið í Jafnaðarmannaflokknum haft samræði við fimmtán ára stúlku á samkomu ungra jafnaðarmanna. Ekki er víst að það mál leiði til ákæru.

Þáttastjórnanda hjá danska ríkisútvarpinu var sagt upp nýlega eftir ásakanir um að hafa áreitt samstarfskonur sínar og svo mætti áfram telja. Thomas Brorsen Smidt verkefnisstjóri hjá Alþjóðlega jafnréttisskólanum í Háskóla Íslands finnst sem þessa stundina séu áhrif metoo-bylgjunnar mest á vinstri væng danskrar pólitíkur, hjá flokkum sem hafi skipað sér sjálfum í sveit þeirra sem láti sig jafnréttismál, kynferðislegt ofbeldi og áreitni varða. Mál áberandi liðsmanna komi því illa við þá. Viðhorf dansks almennings hafi breyst.

Thomasi finnst sem margt af því sem sést hafi í dönskum fjölmiðlum minni á það sem var á Íslandi fyrir þremur árum, spurningar á borð við af hverju sagði hún ekki neitt, af hverju sagði hún ekki nei, af hverju hafa menn ekki verið nafngreindir. En núna undanfarið hafi mátt merkja viðhorfsbreytingar og það hratt. Hann tekur dæmi af þekktum blaðamanni sem hafi stuttu eftir áhrifamikið ávarp fjölmiðlakonunnar Sofie Linde skrifað að þar hafi hún skaðað metoohreyfinguna.

Linde sagði frá áreitni sem hún varð fyrir af hálfu yfirmanns síns þegar hún var að stíga sín fyrstu spor í fjölmiðlum án þess að nafngreina hann. Fyrstu viðbrögð blaðamannsins hafi verið að þar hafi hún slegið þessu upp og allir legið undir grun í stað þess að vísa beint til atburðann. En tveimur vikum síðar hafi blaðamaðurinn skipt algerlega um skoðun, ávarp LInde hafi ekki skaðað umræðuna heldur blásið í hana lífi og full nauðsyn hafi verið til. 

Danir horfa í eigin barm sem þeir gerðu ekki þegar metoo-bylgjan reis um árið

Thomas heldur líka að viðbrögð danskra fjölmiðla nú séu ólík því sem var árið 2017. Þá var fjallað um það hvað væri að gerast í öðrum löndum, í Bandaríkjunum og Svíþjóð og talað um metoo eins og eitthvað sem væri í gangi úti í heimi en ekki heima við. Fjölmiðlar í Danmörku  takist á við núverandi bylgju á allt annan hátt og af miklu meiri gagnrýni. Þó að nokkuð hafi borið á því að talað sé um til dæmis Frank Jensen og Morten Östergaard sem ógeðslega karlmenn sem hafi brotið af sér þá vísar hann til þess sjónarmiðs að slík skrímslavæðing geri þá að einstökum dæmum sem dragi úr því hvað kynferðisleg áreitni sé útbreidd og hafi alltaf átt sér stað. 

Konur létu þetta áður yfir sig ganga

Rósa Guðrún Erlingsdóttir, stjórnmálafræðingur segir að Linde hafi með ávarpi sínu tekið lokið af sjóðandi potti og síðan þá hefur umræðan farið vaxandi og hún verið leidd af yngri konum. Ritt Bjerregaard, einn þekktasti stjórnmálamaður Dana, tók í fyrsta sinn sæti á þingi 1971 fyrir Jafnaðarmenn. Hún sagði í viðtali við DR í vikunni að yngri konur sættu sig ekki við það sem þær gömlu hefðu látið yfir sig ganga. Viðhorfið hefði bara verið það að svona hegðuðu karlar sér, konur þyrftu að vita hverja og hvaða kringumstæður skyldi varast en sáu ekki að þær gætu breytt þessu.  Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana sagði  í vikunni að búast mætti við fleiri málum úr röðum jafnaðarmanna.  Rósa segir það vitað að áreitni gegn konum í stjórnmálum sé kerfisbundin og umræðunni sé alls ekki lokið í Danmörku. Þetta sterka viðbragð og háværa umræða nú sé merki um kynslóðaskipti í stjórnmálunum. Ungar konur sem ætli sér frama og vilji fá sitt rými sætti sig ekki við áreitni eða jafnvel verra sem hafi bitnað á þeim sem fyrir voru. Þetta er grafalvarlegt mál segir Rósa og bitnar á lýðræðinu því konur sem eru í minnihluta þeirra sem fara með stjórn mála hvort sem er á þingi eða í viðskiptalíf láti þetta fæla sig frá. Hvergi í Evrópu og ekki einu sinni á Norðurlöndunum sem talin séu í fremstu röð sé jafnt á komið með körlum og konum á þjóðþingunum. Það sé til vansa því menningin sem fylgi konum í stjórnenda störfum sé önnur.

Frjálslyndum viðhorfum til kynferðismála getur fylgt vandi

Í Danmörku hefur verið ríkjandi menning frjálslyndis, jafnvel lausungar gagnvart kynlífi segir Thomas. Danir líti á sig sem  frjálsa þegar kemur að því og það er jákvætt en í þessu getur líka falist að ekki sé litið alvarlegum augum á kynferðislega áreitni. Ekki síst þegar áfengi er komið í spilið.  Þetta séu ungar konur ekki til í að láta ganga yfir sig lengur eða að draga úr því  með sjálfum sér að þetta sé alvarlegt. Rósa segir jákvætt að þetta sé nú samtal milli kynslóða. Líkt og hér heima séu yngri konur leiðandi í jafnréttisbaráttunni og umræðu um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Þær hafi líka verið aldar upp við það að þær geti gert það sem þær vilji og taka sér sitt pláss. Þegar þær svo reka sig á veggi segja þær ég ætla ekki að sætta mig við þetta.